Blæbrigðin

Maður sannfærir aldrei neinn um neitt. Betra er að láta ógert að reyna það því fyrr en varir kann maður að hafa sannfært viðmælanda sinn um hið öndverða við það sem maður hugðist telja honum trú um. Fólk forherðist. Fólk vill ekki sjá blæbrigði. Það vill hafa skoðanir sem gera það sátt við sig sjálft. Á tímum þar sem orð breytast í uppnefni smáborgara í smásmugulegu rottukapphlaupi hraðar en hægt er að segja: „Haltu kjafti!“ dugir lítt að hafa horn í síðu orða eða sundurgreina þau eftir merkingu, þeim er óðar slengt í andlit næstu manneskju eins og skít og ekki hægt að róa neitt við núverandi pólstöðu. Það þykir ekki merkilegt að vera víðsýnn, það þykir merkilegt að hafa einfaldar, sterkar og skýrar skoðanir.

Það er dálítið merkilegt að lesa eina af þessum smáfréttum þar sem ungur meðlimur Miðflokksins er kallaður rasisti og svarar með því að gangast við að vera rasisti. Hann útskýrir það svo nánar og segist telja að „genamengi“ hafi mikið að segja um þjóðir og telur eina stríðshrjáða þjóð ekki vera það sama og aðra stríðshrjáða þjóð.

Það sem er merkilegt við þetta er að allt í einu dúkkar upp raunveruleg og upprunaleg merking orðsins rasisti, þetta sem felst í stofninum, rasa, sem sé kynþáttahyggja. Manninum er ekki í nöp við þjóðir bara hipsumhaps heldur aðhyllist hann kenningakerfi sem segir honum að kynþættir séu mismunandi, og þá væntanlega mismerkilegir. Það er oftast ekki það sem átt er við með orðinu „rasisti“. Nákvæma skilgreiningu er ekki að finna eins og orðið er oftast notað, sem er eiginlega sem uppnefni.

Það eru til mörg íslensk orð sem mætti nota í staðinn fyrir „rasista“, sem sem „útlendingaandúð“, ef maður gerist smásmugulegur. Ef einhver heldur þá í alvöru að hann telji rasistum hughvarf með því einu að kalla þá rasista. Fremur en að ræða við fólk af þolinmæði og reyna að grafast fyrir um hver raunverulegur hugmyndagrundvöllur þess sé, sem að sönnu er líklega oft þreytandi og leiðinlegt. Oftast bólar ekkert á því að fólk læri af reynslunni, átti sig á að það hleypur bara hundur í fólk við að vera kallað rasistar, enda ekki grunlaust að orðastimplarnir séu líka notaðir til að fólk geti skilgreint sig sem andstæðu ónefnanna sem það notar um aðra. Og þannig áfram eftir tvíhyggjunnar endalausu ranghölum.

Einhver segir af sér lítt merkilegri stöðu fyrir þær sakir að játa nokkuð óvænt á sig rasisma, þrátt fyrir góðar tilraunir annarra í hlaðvarpinu til að beina umræðunni á farsælli brautir. Eru þetta nokkur stórtíðindi? Nei. Það eina sem er merkilegt við þetta er að einhver noti um sjálfan sig orð í þeirri merkingu sem því var upprunalega ætlað að hafa.

Því Spánverjavígin stöfuðu ekki af rasisma. Stefnan var ekki til á þeim tíma og anakrónískt að tala þannig. Þau stöfuðu af því sem nefnist „xenófóbía“ og merkir á íslensku einfaldlega ótta við hið óþekkta. Sem ekki er skrýtið að einangruð þjóð lengst norður í ballarhafi ali með sér um það sem það ekki þekkir, sem er allur heimurinn. Er ástæða til að óttast hið óþekkta? Ég veit það ekki, hið óþekkta er óþekkt. Besta leiðin er að reyna að kynna sér það sem er óþekkt. Þá verður það ekki lengur óþekkt heldur þekkt. Þá hverfur óttinn. Rétt eins og ótti við trans fólk getur horfið við það eitt að taka í höndina á trans manneskju. Það þarf ekki meira. Snertingin er æðsta skilningarvitið.

Eiginlega þvælast orð mestmegnis fyrir skilningi um þessar mundir því þau eru kerfisbundið svipt öllum blæbrigðum sínum. Snertingu, jafnvel bara handaband, er ekki hægt að svipta blæbrigðunum.