Bókatíðindi

Frómt frá sagt fer því fjarri að ég lesi einu sinni helminginn af því sem kemur út fyrir hver jól. „Ert þú ennþá að „fylgjast með jólabókaflóðinu?““ hef ég eftir vinkonu minni, prófessor, sem sagði að eitt helsta skáld Íslendinga hefði sagt þetta við hana fyrir margt löngu.

Hjá mér hef ég Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur sem ég fékk í jólagjöf en er ekki byrjaður að lesa. Fordómarnir (í merkingunni jákvæðir fordómar) eru mjög góðir. Ég hef heyrt bókinni hælt í hástert af fólki sem talar um bækur við annað fólk fremur en að fjalla um þær með neinu agenda eða í atvinnuskyni (í merkingunni fólk sem hefur engra hagsmuna að gæta). Ég held að það sé ástæða fyrir því að þetta var eina bókin sem ég fékk í jólagjöf. Önnur bók sem ég hef jákvæða fordóma gagnvart er bók Bjarna Bjarnasonar um Drauma-Jóa, Dúnstúlkan í þokunni. Reyndar virðist Bjarni ekki fjarri mínnum eigin hugðarefnum í skáldsögunni Millibilsmaður. Ég hef ég lesið skrif Bjarna um Drauma-Jóa og rannsóknir Ágústs H. Bjarnasonar á honum. Muni ég það rétt hefur Bjarni skrifað BA-ritgerð og grein í Ritið um efnið. Satt að segja þótti mér nokkuð um vannýtt tækifæri í því sem ég las. Eitt er að Bjarni fullyrðir að um sé að ræða fyrstu dulsálarfræðirannsóknina á Íslandi, sem er ekki rétt, Drauma-Jói hafði verið rannsakaður áður (og ekki þarf að spyrja hér hver það gerði). Annað er að mér finnst vanta ýmislegt um samhengi efnisins og því sem Ágúst H. Bjarnason var að hugsa á þessum árum. Ég á bók hans um Drauma-Jóa (sleppti henni í skáldsögu minni því hún fellur utan tímasviðs hennar) og hef lesið fleiri bækur eftir Ágúst. Langsamlega líklegasta tilgátan um aðkomu Ágústs, með svo opnum huga að erfiðu efni, er að hann hafi fengið leið á skærum sínum við spíritista, en Ágúst var einhver öflugasti andstæðingur spírítista sem um gat og skrifaði heila bók gegn þeim, með ólíkindum kjaftfora, auk óteljandi greina. Reyndar er mér málið ekki alveg óskylt því Ágúst var langalangafi barna minna, þótt hann sé mér allsendis óskyldur, og staðreyndin er sú að Drauma-Jói skrifaði Ágúst fjölda bréfa sem eru í geymslu afkomenda hans. Í raun liggur næst að álykta að Ágúst hafi atast svo mikið í spíritistum að hann hafi gert sig óvinsælan umfram efni en hann vantaði einmitt meðritstjóra að bókmenntatímariti og hafði Einar Kvaran í sigtinu. Þetta var kúvending. Með bók sinni um Drauma-Jóa kemur hann til móts við hugmyndir spíritista að því svartalágmarki sem hann hefur álitið þurfa til. Kvaran tók ritstjórnina að sér. Bróðir minn hefur stúderað bókina um Drauma-Jóa vel og ég sé ekki á rannsóknarskrifum Bjarna að hann hafi komið auga á það allra athyglisverðasta í skýrslu Ágústs sem þó ætti að vera ljóst glöggu auga. En hvað um það, ég ætla að lesa bók Bjarna og hlakka mjög til. Það getur verið margt við Drauma-Jóa sem ekki kemur fram í skrifum Ágúst — og svo getur allt gerst í skáldsögu.

Önnur bók er jafnmikið skyld Millibilsmanni og bók Bjarna en það er skáldsagan Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl. (Já, ég met bækur einvörðungu eftiri skyldleika við mínar eigin bækur og já, ég er rithöfundarithöfundur). Það má vænta þess að þetta séu ólíkar bækur, þessi og bók Bjarna, þótt þær séu báðar sögulegar skáldsögur og á nokkuð svipuðum slóðum. Náttúrulögmálin vakti mikla athygli og sú athygli var á skjön við dálítið kynduga umræðu um að nú væri tími doðranta liðinn og tími stuttra skáldsagna runninn upp. Þá er gengið út frá því að Náttúrulögmálin sé doðrantur sem þurfi mikið úthald til að lesa en staðreyndin er sú að svo er allsekki. Náttúrulögmálin er ferlega skemmtileg skáldsaga og það má nánast lesa hana í einni striklotu, þótt hitt sé vissulega rétt, eins og Óskar Árni hefur sagt svo árum skiptir, að smáprósar hafa mikla kosti á tímum þar sem allir eru uppteknir og enginn hefur tíma til að lesa. Náttúrulögmálin fjalla um ráðstefnu presta á Ísafirði en höfundur hefur viðað að sér miklu efni um heimabæ sinn á síðustu árum. Þetta merkir að maður fær ekki klisjukenndu þorpsímyndina sem hefur viljað brenna við að sé í brennidepli bæði kvikmynda og skáldsagna á Íslandi þar sem þorp á landsbyggðinni eru rómantískt gettó frá Reykjavík, ósköp sæt og tilvalin fyrir aumingjagæsku Reykjavíkurstórborgara og allir eiga bágt og allt er svolítið lúðalegt en þó sjarmerandi. Þorpið er sannfærandi. Ekki á pari við þorpin sem eru þýdd á erlendar tungur og af því að íslensk landsbyggð er ekki nógu íslensk eru notaðar kápumyndir sem sýna Færeyjar. Hverju ætli það sæti? Hafa Íslendingar svo mikið yfirlæti í garð Færeyinga að það toppar jafnvel borgarríginn gagnvart landsbyggðinni (sem vissulega á sér samsvarandi ríg í hina áttina)?

Sumpart minnir þetta merka prósaverk mig sjálfan á galisískar bókmenntir og þá blöndu af módernisma og rúralisma sem þar varð til á sínum tíma, enda höfundurinn sá eini sem ég veit til þess að hafi skrifað matreiðslubók þannig að hún verði um leið annað og meira og víðara en matreiðslubók, ef undan er skilinn Álvaro Cunqueiro. Að venjulegum matreiðslubókum ólöstuðum, vel að merkja. Greinin er mikilvæg.

Náttúrulögmálin fjallar um yfirskilvitlega hluti, ákveðna hjátrú, en einnig kirkjusögu. Fulltrúi kirkjunnar verður fyrir þeim ósköpum, sem kannski eru það ólíklegasta í allri bókinni, að verða ástfanginn. Á meðan vindur fram undrum og stórmerkjum í sögu prestastéttarinnar og sjálfrar heimsmyndarinnar. Það eru ákveðnir punktar í textanum þar sem markvisst er vikið frá því sem hefur kallast raunsæisleg frásögn, en sagan hefst á algerlega raunsæislegum nótum.

Smám saman taka yfir hörmungar og fjör, í góðu hlutfalli, því skáldsagan drýgir ekki þá mestu höfuðsynd sem bókmenntaverk getur drýgt, að vera húmorlaus. Fádæma öryggi og áreynsluleysi í frásagnaraðferðum birtist hvað skýrast í ólíkum frásagnarmátum sem teflt er saman án þess að eitt rekist í annars horn. Persónurnar lifna án þess að gripið sé til ódýrra ráða og framvindan verður sífellt ólíklegri, ef maður ætlar þá virkilega að hanga í þeirri kreddu að það sem raunsæisstefnan taldi raunsæislegt sé það í raun og veru. Hér skrifar módernískur höfundur — ég hirði ekki um nánari sundurgreiningu á þeirri skilgreiningu — og innri tilfinningaólga og ytri náttúruviðburðir eru fullkomlega sambærileg hvað trúverðugleika varðar.

Punkt af punkti færist frásagnarstefna bókarinnar í aukana, enda þótt þess sjái í sjálfu sér ekki stað í textanum sem alltaf er jafn lipur og hugmyndaríkur. Eins og í smáprósa æðir maður áfram og gerir ósjálfkrafa leit í söguþekkingunni, getur þetta verið? Sem höfundur sem hefur eitthvað fram að færa, umfram eðlilegustu væntingar, bregst Eiríkur ekki, enda löngu búinn að sanna sig sem frábær höfundur, og því fágæta jafnvægi er náð sem er svo sjaldgæft, að módernískur höfundur sé ekki fráfælinn söguþræði og nái í sömu andránni að segja góða sögu og varpa fram margbrotinni og flókinni mynd af öðrum tíma, sem þegar upp er staðið á sitthvað sameiginlegt við samtímann, þótt ótrúlegt megi virðast. Bókin er lengri og dýpri en léttlestur fyrir páfann og knýr á með auðmýkt og tilfinninganæmi um tilvistarlegar og hugmyndalegar spurningar en er samt svo auðlesin. Í því felst alvöru galdur.

Fyrir mína parta er Náttúrulögmálin bók ársins.