Bókmenntaverðlaun (reprise)

Bókmenntaverðlaun sem fyrirbæri eru tiltölulega ný af nálinni. Nítjánda öldin átti sín bókmenntaverðlaun en það er fyrst með massamarkaðssetningu á bókmenntum á tuttugustu öld sem þau taka að blómstra uns það verður svo að það að fá bókmenntaverðlaun eða fá þau ekki getur skipt sköpum í ferli höfundar, skilið á milli feigs og ófeigs. Að vísu má andmæla því að þetta sé nýjung því á Dýnonísosarhátíð veittu Forn-Grikkir verðlaun fyrir besta leikritið, ekkert er nýtt undir sólinni. Nóbelsverðlaunin koma til skjalanna í upphafi tuttugustu aldar og eru í fyrstu mest fyrir Norðurlandabúa og síðan fjölgar verðlaunum og fjölgar á heimsvísu en Nóbellinn verður með tímanum þannig gerður, eins og Saramago orðaði það þegar hann fékk hann, að hann var það eina sem eftir var í henni veröld sem fólk áleit ámóta óvefengjanlegt og orð Guðs.

Jon Fosse er gott val hjá Nóbelsverðlaunanefndinni, en Nóbellinn er að rísa eftir að hafa sett rækilega niður með fjármálaspillingu og öðru þaðan af verra. Það var byrjað áður, Bob Dylan er ekki rithöfundur og bað ekki nefndina um að tilnefna sig sem hún gerði varla nema mest til að upphefja og popúlísera sjálfa sig — þetta virkar á báða vegu — og Dylan kunni henni litlar þakkir fyrir.

Íslendingar áttu ýmis bókmenntaverðlaun og raunar var það svo að Einar H. Kvaran kom fyllilega til greina sem Nóbelsverðlaunahafi og má um það vísa í frábærlega málefnalega ritdeilu Einars við Sigurð Norðdal, Skiptar skoðanir. Bókmenntaverðlaun dagblaðanna hafa án efa skipt miklu fyrir Tómas Jónsson metsölubók, sem var bók sem var á mörkum þess að fást gefin út, og þótt bókin lenti samkvæmt útreikningum dómnefndar, sem samanstóð af gagnrýnendum, í öðru sæti á eftir Laufum og stjörnum eftir Snorra Hjartarsson.

Íslensku bókmenntaverðlaunin urðu ekki til fyrr en árið 1989 og þegar þau urðu til mættu þau strax gagnrýni, ekki hugnaðist öllum sú þróun sem síðar hefur verið kölluð „verðlaunavæðing bókmennta“. En hún er ekki úr takti við þróunina í öðrum löndum. Nýlega lét ég frá mér við tiltekt þykka bók sem var einskær listi yfir bókmenntaverðlaun á Spáni. Mörg hundruð síður. Listinn er um tuttugu ára gamall og er sjálfsagt orðinn doðrantur núna, ef hann hefur verið uppfærður, þegar hvert einasta bæjarfélag, hver stofnun, hver háskóli, hvert rithöfundasetur um hvern rithöfund, er með sín eigin bókmenntaverðlaun.

Einhverju sinni sat ég með afkomanda eins helsta rithöfundar Spánar, Unamuno, og hún hafði komið á fót bókmenntaverðlaunum í litlum bæ sem heitir Zafra og fengið gusu í El País um algera ofgnótt slíkra verðlauna og fullkomið tilgangsleysi þeirra í mergð sinni frá höfundinum Javier Marías og var ekki sátt. Mig minnir að hún hafi hefnt sín síðar með því að láta Marías fá verðlaunin.

Fólk deilir um Íslensku bókmenntaverðlaunin. Ég held að flestir séu sammála Fíkjunni, sem á dögunum tók syrpu um þau og sagði það sem margir hafa sagt, að tilhögunin væri ekki góð þessi árin, að auglýsa eftir áhugamönnum í stað þess að skipa í sérfróða nefnd. Sömuleiðis er nafn verðlaunanna auðvitað úrelt, verðlaun eru fjöldamörg og ekki annað að ætla en að þeim fjölgi áfram og ekkert sem segir að forseti Íslands geti ekki komið að þeim fleirum. Þetta hefur oftsinnis verið sagt áður. Kannski var besta hugmyndin í skipan dómnefndar verðlaunanna þegar skipaður var einvaldur og hann réði því einn hverjir væru tilnefndir og úthlutunin var tilbrigði við það. Þrír er hugsanlega ekki sérlega heppileg tala.

Eitt sinn sat ég í bókmenntaverðlaunanefnd RUV og þar sátu að mig minnir fimm. Í viðskiptalífinu er reglan sú að meðlimir nefnda séu fimm. Raunar var ekki deilt um nokkurn skapaðan hlut í nefndinni því um leið og ég stakk upp á verðlaunahafa var það samþykt. Ég var reyndar ekki beðinn um að vera í nefndinni framar. En þrír býður upp á málamiðlan, skítamix: Einn vill þessa bók, hinn hina, þeir sættast um þá þriðju sem hvorugur er endilega í skýjunum með. Sératkvæðum er ekki skilað. Þótt þrír virki fyrir dómskerfið er einn líka notað þar og ástæðulaust að herma eftir dómskerfinu í þessu á annan veginn fremur en hinn. Og auðvitað á dómari að vera sérfróður, ekki bara fyrsti maður sem býður sig fram. Meðlimur dómnefndar verðlauna á að vera það líka. Ég sat eitt skipti í úthlutunarnefnd Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins, sem raunar lýtur ströngum reglum eins og við er að búast og sértækar kríteríur þrengja svo mjög hverjir geta fengið verðlaunin að strangt til tekið uppfyllir enginn öll skilyrðin. Ég sat í úthlutunarnefnd Þýðingarverðlaunanna í tvö eða þrjú ár og er mér vel meðvitaður um vanda þessa starfs, en nú hef ég tekið út kvótann, lagt mitt af mörkum, sinnt því sem mér fannst einhvers konar samfélagsskylda og sit ekki í fleiri nefndum af þessum toga því fyrir þetta er sjaldnast borgað svo neinu nemi.

Raunar hef ég bara eina athugasemd við Íslensku bókmenntaverðlaunin og tilhögun þeirra: Ég á að fá þau. Ég átti að fá þau fyrir Bjargræði og ég átti líka að fá þau fyrir Millibilsmann. Fyrir báðar bækur átti ég líka að fá að svartalágmarki tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og útnefningu líka og helst tvo Nóbela. En það er nú bara svona. Annað hvort kemur velgengni eða hún kemur ekki og þýðir lítið að spá í það til eða frá. Blessunarlega eru þessar bækur hluti af þríleik og ég get vel beðið.

Svo er það fámennið. Ísland er af þeirri stærðargráðu að það er ekki nógu lítið til þess að vera eins og smáþorp þar sem bara einn kemur til greina til að skrifa sögu þorpsins, skólastjórinn sem er líka sagnfræðingur, en ekki nógu stórt til þess að til greina komi þegar sótt er um stöðu … segjum prófessors í eftirlendufræðum, mikill aragrúi fólks og þar af fjöldi sem nefndin þekkir ekki persónulega.

Þannig er það bara í öllu. Á veislu á dómstóladeginum gerði Lolla stólpagrín að ættartengslum í dómstólum og enginn tók það neitt nærri sér (öfugt við sumar háskóladeildir þar sem ekki má nefna ættartengsl en er í góðu lagi að saka fólk um að engan áhuga á bókmenntum, enginn fer í áratugafýlu yfir því þótt mér finnist það nú talsvert alvarlegra, sem og yfirlesurum mínum í denn). Það er nokkurn veginn öruggt að flestar háskóladeildir á Íslandi eru meira og minna með innæxlun, ættartengsl og vinskap, svo ekki sé nefndur einkageirann sem má það líka vel, hvergi er tæpt á neinu í nánd við fordæmingu í stjórnsýslulögum og ekkert athugavert við að ráða sonsa í fyrirtækið.

Við þetta allt saman er ekkert merkilegt. Þó þykir frændhygli og vinahygli almennt ekki góð, hversu erfitt sem kann að vera að komast hjá hagsmunaárekstrum í smáríki. Félagslegir þættir koma líka inn í hlutina hjjá verðlaunanefndum: Þessi þarna er búin(n) að fá, þessi var tilnefnd(ur) í fyrra, þessi þarna karl, verður að fara út til að passa upp á kynjahallann (þótt undanfarin ár hafi hallað mjög á karla ef allur verðlaunageirinn er tekinn saman), við verðum, hugsa nefndir ómeðvitað, að huga að því að stærstu forlögin sem leggja mest fram af verðlaunafé fái sinn skerf, við tilnefnum ekki bók frá sveitavargalúðaforlagi, nú, eða risaforlagi, eftir því hvernig fordómarnir liggja, þessi þarna tilheyrir engri kategoríu, hinn er skapstór og reiðist ef gengið er framhjá honum/henni. Síðan er einfaldur klíkuskapur sem batnar ekki við að auglýsa eftir nefndarmeðlimum heldur beinlínis opnar á þá hugsun að fólk bjóði sig fram fyrir vini sína (mér kemur til hugar höfundur sem var tilnefndur af fyrrverandi nemanda sem hún hafði verið aðstoðarprófessor hjá og síðan tilnefndur af öðrum nemanda ásamt með samprófessorum til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók, sem fjallar um hvað íslenskur bókmenntaheimur sé spilltur.) En aftur: Það er mjög erfitt að ná fram armslengd í örríki. Hinum vanheilögu er allt vanheilagt.

Og svo er það hitt: Það þarf ekki mikla stærðfræðihæfileika til að átta sig á að það er ekki hægt að lesa svona margar bækur á svona stuttum tíma. Langflestar bækur detta út á fyrstu stigum að lesnum nokkrum blaðsíðum eða köflum. Og þá er sagt og oft með réttu: Maður sér það strax á fyrstu blaðsíðunum hvort þetta er litteratúr. Ef ekki er að sjá á fyrstu köflunum að bókin sé algert djönk en síðan vill svo til að hún er mörg hundruð síður er einfaldlega tímasparnaður að tilnefna hana fremur en að lesa hana, einkum ef snobbið bendir til þess að hún geti verið góð. Svo er horft á athygli fjölmiðla. Það er hlustað á kjaftasögur og skoðanir á bókum sem maður hefur ekki lesið og valdamiklir menn geta haft mikil áhrif, það þarf ekki annað en að hitta einhvern á kaffihúsi og lenda á spjalli.

Svo eru það kúltúrbörnin. Þau má ekki nefna. Þau eru afskaplega viðkvæm fyrir ætterni sínu og virðist þykja glæpsamlegt að nefna forfeðurna, eða tala um þetta af léttúð, enda þótt það geti varla verið mikið út í hött, genetískt séð, að hæfileikar á vissum sviðum erfist og að fólk álykti að þeir geri það og hygli eftir ætterni. Þar með er ekki sagt að bækur kúltúrbarna séu vondar. Leikurum finnst ekki fyndið að vera bent á að þeir séu leikarabörn svo sérlega áberandi er, sannleikanum verður hver sárreiðastur, en Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir var sú eina úr leikarastétt sem svaraði þessari umræðu heiðarlega og sagði að hún hefði aldrei orðið leikkona ef mamma hennar hefði ekki verið leikkona.

Ég sjálfur hefðu aldrei orðið atvinnuleikari í tvö ár í Þjóðleikhúsinu, báða dagana allar helgar, ef ekki hefði komið til náin vinátta Sveins Einarssonar við móður mína frá blautu barnsbeini (sem nú hefur breyst í vináttu við mig) og ef ekki hefði komið til náin vinátta mín við Halldóru Geirharðsdóttur frá eins árs aldri. Spilling? Ekkert sérstaklega mikil. Bara íslenska kunningjasamfélagið.

Hvort sem manni líkar betur eða verr eru bókmenntaverðlaun komin til að vera og Íslensku bókmenntaverðlaunin fara hvergi (nema FÍBÚT fái leið á þeim og vilji gera eitthvað annað). Það er vafalaust rétt að hægt væri að vekja athygli á þeim einhvern veginn og nota þau til að skapa umræðu um bókmenntir og ég held að það sé tvímælalaust rétt að ekki eigi að auglýsa eftir nefndarmeðlimum heldur skipa þá. Annað hljómar einfaldlega ekki eins og verðlaun séu marktæk (og skilgreiningin á spillingu er ekki endilega að eitthvað sé spillt heldur má það ekki virðast vera spillt). Það getur vel verið að í fámenninu álíti bókaútgefendur sig komna hringinn með að skipa meðlimi. Þá er bara að fara annan hring.