Í þarsíðustu bók minni er texti sem fjallar um framtíð þar sem gervigreind sér um að skrifa skáldverk. Raunar er gengið lengra því gervigreind sér líka um að lesa textann og gervigreind sér um ritdómana og gervigreind skrifar fræðigreinar um skáldskapinn og allt verður „sjálfbært“. Ekki nokkur lifandi sála les bækur lengur. Þetta var slappstikk (óttaleg vitleysa, fannst mér, en Álfrún Gunn hvatti mig til að klára og hver sá lengra en hún?) Og meðan það þó endist að fólk lesi hefur það á orði, eins og fara gerir um tækninýjungar: Þetta var svolítið framandlegt fyrst en svo vandist það.
Sem er svo sem ósköp svipað og menn gætu hafa sagt eftir að nasistar réðust inn í Pólland. Svolítið skrýtið fyrst en svo vandist það bara því allt venst. Nú erum við með afþreyingarbúðir fyrir utan borgina og þangað fer fólk til að vinna því vinnan göfgar manninn og allt það.
Það þurfti ekki mikla spádómsgáfu til að segja fyrir um að gervigreind myndi skrifa bækur. Það blasti við þá þegar. Fólk hafði kannski hins vegar áttað sig á því hversu stutt væri í þetta.
Nú hugsar gervigreindartækið sjálft og það þroskast og lærir af reynslunni. Hversu mikil hluti, ef einhver, af bókum skrifuðum af gervigreind hefur að geyma frumlega hugsun? Það veit enginn ennþá en nóg er komið út af bókum eftir vélar sem eru sagðar eftir höfunda sem vissu ekki einu sinni af þeim og gervigreindin getur búið til ljósmyndir af höfundunum sem aldrei hafa verið teknar. Samanber ljósmyndina hér að ofan sem er ekki tekin við raunverulegt tilefni heldur framleidd af gervigreind með þeirri skipan að kettirnir mynduðu orð ef vel væri rýnt. Sér einhver orðið? Pírt úr smá fjarlægð?
Fyrir nokkrum vikum sagði ég mig kurteislega úr hinni svokölluðu Risamálheild sem er að því er ég best veit til húsa við Þingholtsstræti og heyrir undir Árnastofnun og hefur að geyma aragrúa af textum eftir íslenska rithöfunda. Hvernig stendur á því? Jú, höfundarnir sjálfir gáfu leyfi sitt til þess. Það tók nokkrar atrennur. Í fyrstu voru útgefendur beðnir um að láta í té nýjar bækur á tölvutæku formi í því skyni að bjarga íslenskunni á tímum þegar styttist í að ekki aðeins sjálfvirkar ryksugur tali heldur ísskápar, baðker, þvottavélar, allt. Útgefendur sögðu þvert nei. Þeir höfðu sínar ástæður og ekki tilefni til að gera þær ástæður tortryggilegar, raunar voru þær skynsamlegar. Þá þurfti að gera þetta handvirkt og senda á hvern og einn höfund beiðni í gegnum Rithöfundasambandið. Beiðninni fylgdi eyðublað sem höfundar þurftu að útfylla og senda til baka. Eins og gefur að skilja varð lítið um heimtur. Bréfið var leiðinlegt og fáir rithöfundar lesa allt sem berst frá RSÍ. Nokkru síðar var tekin upp nýlunda. Rithöfundum var sent bréf, jafn leiðinlegt og langt og hið fyrra, sem endaði á því að höfundurinn þyrfti ekkert að gera til að veita samþykki sitt nema að láta bréfinu ósvarað. Þá yrði litið á það sem „ætlað samþykki“. Ef ekki bærust sérstök andmæli.
Nú er þetta auðvitað kolólöglegt. Það stendur hvergi í lögum neitt um „ætlað samþykki“ nema þegar um líffæragjafir er að ræða. Allir Íslendingar lúta „ætluðu samþykki“ þegar kemur að því að gefa líffæri úr þeim að þeim látnum en þó er hægt að segja sig frá þessu samþykki skriflega. Ættingjar hafa takmarkaða möguleika á að hindra þetta, vilji þeir það, en að sjálfsögðu er skilyrði að viðkomandi sé dáinn, það er ekki leyfilegt að reka fingurna inn í næsta mann og taka úr honum nýrað.
Nú kannski hljómar þetta ekki hættulega. Hver vill vera fúlisti og fá á sig þann stimpil að vera á móti öllu, bitur og tortrygginn? Þannig stimplum er hæglega beitt og þeir eru auðveldir. En nú vill svo til að ég á vin sem er betri í tæknimálum en ég og hann hefur beinlínis sýnt mér að með nokkrum vel völdum skipunum við forrit sem er opið á netinu er hægt að láta skrifa texta sem lítur út eins og hann sé eftir Jón Kalman. Stíllinn er þekkjanlegur. Og með nokkrum skipunum til viðbótar er hægt að breyta sama texta um sama efni þannig að hann líti út eins og ljóð eftir Gerði Kristnýju. Textinn styttist og verður stuðlaður og stíllinn jafn auðþekkjanlegur. Svo má bæta því við að textinn beri keim af Eiríki Erni Norðdahl og þá gerir hann það. Hægt er að búa til kokteila af hinum og þessum rithöfundum og sæmilegur stílgreinandi sér einkenni þeirra allra.
Er þetta ekki hætta sem ber að taka alvarlega, á kostnað þess að eiga á hættu að vera álitinn fúlisti?
Eftir því sem ég best veit er ég eini rithöfundurinn á Íslandi sem hefur skrifað bréf og beðið um að vera fjarlægður úr risamálheildinni. RSÍ situr uppi með þá skömm að hafa sent út bréf sem biður um leyfi sem ekki stenst landslög. Þar á bæ ku fólk vera mjög hugsi í dag, nokkrum árum síðar. Nú er ég ekki sannfærður um að það sé yfirleitt tæknilega mögulegt að fjarlægja sig úr málheildinni, eins og boðið var upp á, en það hlýtur að vera þess virði að reyna, þegar svo er komið að jafnvel Elon Musk vill gera hlé á þróun gervigreindar í hálft ár þar til í ljós komi hvort við séum komin handan svokallaðs hvarfbaugs, þaðan sem ekki verður aftur snúið, gervigreindin er gáfaðri en við og allsendis laus við siðvit og gæti tekið upp á ýmsu sem er verra en átómatískur ritstuldur, því gervigreindarforrit eru með aðgang að Twitter, mynda sér eigin skoðanir, þróa sig og þroska og eitt þeirra var orðið nasisti áður en nokkur vissi af. Fólk hefur sumt hvert oggolitlar áhyggjur af því að gervigreind á öðrum sviðum muni útrýma mannkyni og uppsker háðsglósur.
Eigi að síður væri rithöfundum hollt að leita að pósti í pósthólfinu sem heitir „Ósk um leyfi til að nýta útgefna texta þína í málrannsóknum og máltækniverkefnum“ og skrifa svo þeim sem þar er í forsvari og er með netfangið steinthor.steingrimsson@arnastofnun.is og biðja um að vera fjarlægð/ur úr gagnagrunninum. Þetta er afskaplega kurteis náungi og ég sjálfur var afskaplega kurteis í garð Árnastofnunar en þetta getur ekki gengið svona. Það veit enginn í heiminum hvað hann er með í höndunum þegar kemur að gervigreind. Það er ekki dónaskapur og ekki fúllyndi að vernda eigin lögbundnu hagsmuni þegar á þá er gengið svo ekki stenst landslög.
Ég er að spá í að vera alla vega höfundur eigin bóka framvegis, aðrir ráða hvað þeir gera.