Svo gersamlega alger er mín ógæfa og ólukka, sagði hann, að fólk hefur hreinlega tekið upp á því að öfunda mig fyrir einmitt þær sakir. Því það óskar þess heitt að það hefði einhverja raunverulega ástæðu fyrir vanlíðan sinni en finnur hana ekki. Það er gömul saga og ný. Bros hans að þeim orðum mæltum var kaldhæðið eða eiginlega frekar íbyggið. Eins og hjá manni sem í raun og veru skilur að enginn lýgur almennilega að öðrum án þess að ljúga fyrst svo vandlega að sjálfum sér að hann trúir eigin lygi af innilegri sannfæringu. Ella myndi enginn trúa lygi neins.