Tveir bestu bloggararnir, Ármann og Eiríkur Örn, verja tíma sínum í risavaxin lesverkefni: Proust og Joyce, helstu verk tveggja evrópskra bókmenntarisa. Mér finnst að ég ætti að taka mér annað eins fyrir hendur. Einhvern tíma þýddi ég einn erfiðasta kaflann í Rayuelu Cortázars á bloggi. Það var alvöru verkefni.
En hvort tveggja er að ég er efins um að ég skrifi neitt út frá slíku verkefni sem nokkurn áhuga veki og ég á sífellt erfiðara með að skrifa um bókmenntir. Ég óttast jafnvel að missa út úr mér einhverja þvælu, eitthvað mjög óviðeigandi, treysti sjálfum mér ekki til fulls til að halda mig innan marka.
Kannski virkar þetta einmitt öfugt: Maður öðlast kraft til að skrifa einmitt út af því að maður leggur eitthvert slíkt verkefni fyrir sig. Í raun má segja að þetta sé sú afdráttarlausasta afstaða sem hægt er að taka til samtímaefna. Að sögnin sé: Svo mikið er ofnæmi mitt fyrir samtímaefnum að ég sný við samtímanum baki. Vel mér dvalarstað í bókmenntastórvirkjum 20. aldar.
Ég las Joyce á næturvöktum í Húsdýragarðinum og hafði til hliðsjónar aðstoðarverk eða fylgirit því það er varla nein leið að gera það með nokkurri rænu án slíks. Ég hef aldrei klárað Proust. Með slíku verkefni gæti maður kannski þvegið sig af áhrifum samtímans, öllum þeim blikum sem eru á lofti, flekaskilunum sem standa yfir og illt er að greina, Norðurpólnum og Suðurpólnum sem í sífellu þrátta því afgangurinn af heiminum er ekki lengur til.
Það höfðar meira til mín að skrifa um tónlist. Ég gæti sökkt mér í Niflungahring Wagners, virkilega sökkt mér í hann. Ég hef séð hvernig slíkar vangaveltur geta verið endalaus uppspretta frjórra hugsana, ferðalaga á tónleika, einhvers sem gefur lífinu gildi.
Ég pára hjá mér greiningarpunkta um Eirrek, sem stendur mér kannski nær. Platan, sem er nýútkomin, kveikir í henni, greiningunni. Hún hefur áhrif á mig og mig langar að skilja áhrifin. Kannski klára ég punktana og birti, lag fyrir lag, síðar. Læt mér þó nægja í dag að segja að ég mæli mjög með henni.