Eftirlitssamfélagið

Hvað gerist nú?

Ég man ekki hvernig þetta virkar, hef ekki haft tíma til að sinna þessum miðli.

Hvað fólk á við með „eftirlitssamfélagið“ fer alveg eftir því hvaðan það kemur og í hvaða átt það stefnir, ef þá nokkra. Ef fólk er að byggja sér hús rekur það sig fljótlega á að búið er að breyta lögum á þann veg að byggingarstjórar sjá um allt eftirlit sem áður var á könnu byggingareftirlits borgarinnar. Verktakinn er ábyrgur gagnvart borginni en tryggingar hans sjálfs eru aldrei það háar að þær dekki leynda galla sem kunna að koma í ljós eftir að búið er að hrófla upp nýju hreysi í henni Reykjavík.

Eftirlit með húsbyggingum í Reykjavík lýtur sem sé ekki svo gömlum lögum sem aflétta eftirlitinu af borginni þannig að ef maður vinnur í járnabindingum eða við uppgerð Viðeyjarstofu, eins og ég hef gert hvort tveggja, á maður ekki von á að nokkur eftirlitsaðili frá borginni, svo sem eins og sá ágæti maður Magnús Sædal, heitinn, birtist óforvarendis og hafi eftirlit með því að hlutirnir séu gerðir rétt og í samræmi við lög og reglugerðir. Sá sem sinnir eftirlitinu er yfirverktaki sem rukkar fyrir að sinna eftirliti. Og hafa yfirumsjón með byggingunni að öðru leyti. En er ekki borgunarmaður fyrir því sem kann að fara úrskeiðis.

Á hinn bóginn er sífellt nánara eftirlit haft með borgurunum í þágu þess að hægt sé að selja honum eitthvert drasl með hliðsjón af því á hverju hann hefur áhuga að teknu tilliti til þess eftirlits, eða einfaldlega þeirra alþjóðlegu njósna, sem hann sætir. Borgarinn segir Grikkland í símann eða gúgglar „sumarfrí á Grikklandi“ og óðar birtast auglýsingar út frá því eftirliti. Gæðaeftirlit með fasteignum er á sama tíma í sléttu núlli ellegar alveg án innistæðu því tryggingin er við svartalágmark.

Kannski hafa flestir sem nota orðið „eftirlitssamfélag“ í huga alræðissamfélag sem hefur eftirlit með þeim út frá ríkisalræði. Fólk fær ekkert þannig eftirlit, til góðs en þó mest ills, það fær eftirlit frá einkafyrirtækjum sem vilja koma í veg fyrir að það fái vinnu út frá stjórnmálaskoðunum eða glannalegum yfirlýsingum á samfélagsmiðlum, sem auðvitað eru hvoru tveggja út í hött en heyra undir frelsið, og hafa eftirlit með því að það kaupi nógu djöfull mikið af ónýtu drasli, grunlaust um ástæðuna.

„Þú hefur nefnilega fengið risagervinýru með vasa.“