„Og ég sem er einn hinna slæmu / og vildi breytast í góðan / vildi breytast í góðan / en þú elur með þér ótta.“
Tvítekið. Flamenco í bland við eitthvað annað og óskylt og margt. Lauslega þýtt. Og svo úr öðru lagi línan:
„Ég sá hinn blinda lesa strenginn með hinum blinda.“
Ég skil ekki línuna.
Og titill á enn öðru lagi:
„Um það hvernig Antonio Machado endurreisti og hreinsaði til í húsi skugganna.“
Allt á spænsku eða portúgölsku.
Fiðrildin í garðinum eru eins og litlar hlussur af birtu og skrautlitum. Appelsínugulu blómin eru tekin að falla. Hundurinn er hvítur og gefst aldrei upp þótt hann fái aldrei neitt hjá Íslendingnum sem fer að sveitamannasið og gefur ekki hundum þótt hann taki kjöt til matar síns úti í garðinum undir lauftjaldinu fyrir framan hundinn. Það er dónalegt að gefa hundum ókunnugra, ósiður að gera hunda að sníkjudýrum yfirleitt. Hundurinn er farinn að róta í ruslinu og veiða þaðan upp hvítlauk og gelta að þessum mathák.
Ein plata kemur trekk í trekk á spilunarlista minn og sver sig einhvern veginn vel í ætt við andrúmsloftið:
„Blíðlegur og berfættur“ með Guðmundi Andra Thorssyni. https://open.spotify.com/album/3bvITYlq2vb5ekGgeyGvFm?si=2j90lxtWRS6D0zqCQ8mK2g
Nú er mér málið ekki alveg óskylt því ég spila á nokkuð mörg hljóðfæri á plötunni í fríðra manna flokki. Syng jafnvel. Í flokki fólks sem er nokkuð mörgum flokkum ofar en ég í tónlist, satt að segja.
En þetta er samt plata í sérflokki, blíðleg og berfætt, heimatónlist í garði fullum af alvöru fiðrildum, True Butterfly. Plata ársins 2023, ætla ég hiklaust að segja, ekki síst eftir að hafa hlustað/horft á langt viðtal við Dr. Gunna á Samstöðinni í dag. Hann var bljúgur en þó ekki hikandi við að lýsa því yfir að margt af tónlist samtímans höfðaði bara hreint ekki til hans, væri verksmiðjupopp og eftirapanir, framleiðsla. Gott viðtal, svo lög viðtöl eru sjaldgæf.
Það er eitthvað við plötu Guðmundar Andra, lög og texta, sem fyllir mann hugarró, nánast trúarlegri. Gerir hana einstaka og ekta. Og það er eitthvað við það að finna bara út úr því eftir sextugt hver galdurinn við að semja lag er. Það er engin síðasti söludagur og æskan er ekkert heilög. Ekki er svo verra að vera skáld og kunna það fyrir hvernig maður semur texta. Þó hefur Andri vafalaust átt þátt í ýmsum lögum hljómsveitarinnar Spaða, sem hann söng fyrir. Ég man þó ekki eftir því að hann hafi spilað á annað en munnhörpu, sem féll í minn hlut að þessu sinni, og gert annað fyrir þessa vinsælu hljómsveit en að syngja og kunna ekki að dansa. Ég man ekki eftir honum með gítar á sviði. Eða settan fram sem lagasmið.
Hvað sem því líður er þetta besta plata Guðmundar Andra að mínu hlutdræga mati. Sándið í þeirri síðustu var aðeins of milt fyrir minn smekk en þarna smellur allt saman og í Andra er kæruleysi sem er viðkunnanlegt, jafnvel þótt platan sé í sjálfu sér ekki kærulaus heldur blíð og berfætt og fylli mann þeirri hugarró sem ekki er allra að fylla mann. Hún fellur í mínum huga í einhvern flokk sem er blanda af skandinavískri þjóðlagatónlist og örvilnuðu spænsku flamenco-rokki sem marar djúpt undir.
Fiðrildin kunna vel við plötuna. Jafnvel hundinum líka.