Eltihrellar

Eltihrellar eru af ýmsum toga en í grófum dráttum má skipta þeim i tvennt: Einhver ókunnugur eða einhver nákunnugur. Þótt ólíklegt megi virðast eru þeir fyrrnefndu hættuminni en hinir síðarnefndu. Menn sem elta ókunnugar konur á götum eru sennilega að elta fimm ókunnugar konur til viðbótar og líklega mun ekki koma til ofbeldis. Þeir hafa svo margt í deiglunni að ein kona til viðbótar er auðgleymd. Það eru hinir síðarnefndu sem eru hættulegri. Þeir eru oftast ástvinir eða fyrrverandi makar. Reyndar sýna enskar tölur að það er algengara að karlmenn verði fyrir slíkum eltihrelli en konur.

Í stuttu máli er þetta fólk sem hefur elskað viðkomandi, gerir enn og finnst sér hafa verið hafnað. Fyrrverandi makar. Til eru líka karlmenn sem hafa verið dæmdir frá forræði yfir börnum sínum og eltihrella þá móður þeirra því þeim finnst þeir einangraðir frá fjölskyldunni. „Einelti“ í upprunalegri merkingu sinni á ekki við í þessu samhengi því þegar orðið kom fyrst fram átti það við um að einhverjum einum væri „strítt“ af hópi fólks, til dæmis bekkjum í grunnskóla, ekki að einhver einn ásækti einhvern annan. Með því að skipt forræði verður algengara breytist kynjahlutfallið. Ekki að ég taki kynjum beinlínis alvarlega, þau má líta á sem róf eða sem andstæðukerfi og ég aðhyllist ekki andstæðukerfið.

Ef út í það versta fer verður svokallað umsáturseinelti. Jafnvel Jónas Hallgrímsson varð fyrir umsáturseinelti og kærði það til fógeta. Kæran er til á bréfi. Kona nokkur, veik á geði, ákvað að örlögin væru þau að Jónas væri seinni maður hennar. Hún sat um heimili hans í Reykjavík og lét hann ekki í nokkrum friði. Ég á í fórum mínum bréf frá Jónasi um þetta mál sem eftir því er ég best veit er óbirt. Það verður það áfram. Það eina sem má ráða af því vitrænt er: Það er ekki skemmtilegt að verða fyrir umsáturseinelti.

Net-eltihrellar eru svo eitt til. Það er mjög auðvelt að skoða prófíla fólks á félagsmiðlum og fletta í gegnum myndir af einkalífi fólks og ef þetta verður þráhyggja, áráttuhegðun, flettir fólk stanslaust og skoðar þá svipmynd sem af fólki birtist alla jafna á félagsmiðlum. Það er ekki að skoða veruleikann heldur sýnd. Í raun er þetta mjög mannleg hegðun og eiginlega skárri en að menn sitji um fólk fyrir utan heimili þess. Viðkomandi hefur orðið viðfang ástar einhvers og ef hún er ekki endurgoldin eða hættir að vera endurgoldin er stutt skref á milli ástar og þráhyggju. Hvað er eiginlega ást? Og hvað er þráhyggja? Á öðrum tímum getur að líta önnur orð um það sem í dag er kallað þráhyggja. Það þarf ekki annað en að lesa leikrit Shakespeares til að sjá bestu lýsingarnar á þráhyggju. Í verstu tilfellunum leiðir þetta einfaldlega til morðs. Í þeim skárri veldur þetta þeim sem fyrir verður hugarangri og tætir upp þann sem beitir.

Er ekki til einhver allt önnur aðferð til að skoða þetta og greina en sálfræði nútímans býður upp á? Jú, ég held það. Fólk breytist ekki í sögunnar rás en orðin sem við notum yfir hegðun þess og atferli, sálrænt ástand og afleiðingar þess, þau breytast. Besta ráðið til þeirra sem verða fyrir barðinu á eltihrelli er sennilega það sem sálfræðin boðar: Að slíta öllu sambandi og æsa ekki upp hegðunina með viðbrögðum. Fólk getur verið seint að átta sig á þessu og kannski er þetta ekki alveg algilt. Til skilnings á fyrirbærinu er kannski vænlegast að spyrja sig: Gæti ég sjálf(ur) orðið eltihrellir? Hef ég kannski þegar verið það án þess að hafa áttað mig á því? Eru ekki til aðferðir til að skilja hegðun eltihrellis eins og annað athæfi, alla vega lágmarks skilningi, með því að bera saman við sjálfan sig? Um leið og maður hugsar: Ég hefði getað lent í þessu, þá er einhverju áorkað fyrir mennskan skilning, þótt ekki sé meira.

Stundum leiðast manni skilgreiningar sálfræði nútímans og þykir einsýnt að flokkanir í síkkópata og sósíópata séu stirðar og lýsi ekki öðru en áður hefur verið lýst með öðrum orðum. Þegar önnur hver manneskja, eða fjórða hver manneskja, á að vera síkkópati hlýtur að vera eitthvað að skilgreiningunni sem notuð er. Eins væri hægt að lýsa því með almennum orðum: Það getur hent alla að koma illa fram.

Hvað er þráhyggja? spurði ég víst, án þess að svara því. Þráhyggja er mikil orka sem hefur tilhneigingu til að leita í einn stakan farveg. Hinir einóðu setja sér eitt einasta verkefni og halda sig við það. Ekki er fráleitt að hugsa sér að þráhyggja sé nákvæmlega sá kraftur sem þarf til að byrja á listaverki, til dæmis skáldverki, og halda áfram þangað til það er tilbúið. Rétt eins og það er betri útrás fyrir ofbeldishvöt manneskjunnar að stunda íþróttir eða horfa á kvikmyndir en að beita ofbeldi er list miklu vænlegri leið til að virkja þráhyggju hinna einóðu en vafasöm hegðun eltihrellis.

Þannig getur listin ekki síst verið til bóta fyrir þann sem stundar hana.

Gagnvart eltihrellum raunveruleikans er best að þegja, þótt sú staða geti komið upp að maður tjáir sig nauðbeygður. Ekkert er unnið með því að konfrontera eltihrelli um að hann sé eltihrellir. Hann mun aldrei átta sig á því.

Það er nú það.

Lifi listin, hún leysir svo margt.