Éttu skít — hann er hollari en þú heldur

Þeir sárafáu sem hingað leggja leið sína má með góðri samvisku ráðleggja að éta skít. Skítur er ekki það sama og skítur. Sumt af skít — allt fer þetta eftir skítandanum og hvaða dýrategund hann tilheyrir — er meinhollur og fullur af næringarefnum sem aðrar dýrategundir sárlega skortir. Hér áður var mannaskít blandað saman við dýraskít og allt saman borið á túnin. Ekki þarf að spyrja að sprettunni, hún var stórgóð og ekki síst út af mannaskítnum, en menn skila af sér mun meiru en gras þarf til að spretta. Af sjálfu leiðir að hrossaskítur er meinhollur fyrir menn og kúadella inniheldur meira en góðan slæðing af hollum næringarefnum fyrir menn. Skítur úr öðru kjötætum, segjum minkum eða refum, er ekki sérlega næringarríkur fyrir menn og ráðlagður dagskammtur því lítill. En þegar kemur að grasætum og jurtaætum eru möguleikar manna sem vilja jörðinni vel nánast óþrjótandi. Gíraffaskítur, svo dæmi sé tekið af handahófi, jafnast á við „gimbur af efstu grösum“ sem eitt sinn var slagorð framleiðenda lambakjöts. Án nokkurrar íróníu er því mjög ráðlegt fyrir manneskjur að éta skít og fara eftir þeim sem segja þeim að éta skít því þeir meina vel.

Ekki þarf að taka fram að eins og með aðrar færslur á þessari Norðanátt er eins víst að þessi gufi upp sporlaust, hinum vanheilögu er allt vanheilagt, og allt að einu og enda er ákveðin tilhneiging til að finna skítalykt þar sem enga slíka er raunverulega að finna, eins og hver maður veit sem hefur verið faðir og skipt á bleyju með ungbarnaskít, sem angar eins og sælan sjálf af engu öðru en brjóstamjólkinni sjálfri. Mennirnir skilja ekki annað en það sem þeir vilja og þess vegna gufar skítur upp eða rennur saman við jarðveginn og það getur hið ritaða orð gert líka, horfið eins og mælt mál og gufað upp í andrúmsloftið og fjarað út með hljóðbylgjum ef enginn er nógu fljótur á vettvang and I feel fine.