Fíkjukaktusar

Nýverið vaknaði til lífsins, enn og aftur, og mér til nokkurrar ánægju bloggsíða sem kennir sig við kaktus og er ekki langt síðan fólk stakk sig á.

En nú ber nýrra við. Og nú fer ég að skilja nafnið Kaktus. Ég hélt áður að honum væri ætlað að stinga, þótt ekki bæri sérlega mikið á því fyrir utan stöku loðmulluleg skot á Braga Ólafsson sem höfundi virtist einstaklega umhugað um að stinga fast og það helst undir svo þykkri fimmlaufarós að enginn tæki eftir því og allt virtist hið málefnalegasta. Og Kaktusinn stakk stundum fólk sem hefði fordóma gagnvart ríku fólki, en slíka fordóma virtist kaktusinn þola sérstaklega illa, enda fyrir margt löngu vitað að ríkt fólk verður ríkt vegna verðleika sinna og einskis annars og ríkt fólk gerir aldrei neitt sem er ámælisvert. Maður sá í gegnum fingur sér með þetta, enda var stundum að finna stuðandi og skemmtilegt efni á Kaktusnum sem þá virtist frjálsari en annað fólk, ekki síst þegar kom að trúmálum og slíkum hugleiðingum, slaufunum og slíku.

Nú ber svo við að Kaktusinn stingur nákvæmlega ekki neitt. Hinn upprisni Kaktus hefur hreint enga brodda. Hann skrifar færslu eftir færslu sem ættu betur heima í Viðskiptablaðinu en í nokkrum tengslum við bókmenntaumræðu. Nú síðast vill hann að íslensk bókaforlög fari að dæmi fótboltafélags sem ég kann ekki skil á og geri sig vinsæl, ekki með því að gefa út góðar og innihaldsríkar bækur sem næra fólk, fólk sem er skipt í þýði sem er eins og upp úr Excel-skjali viðskiptafræðings, kalkúlerað og kalt. Nú verð ég ekki sakaður um fordóma gagnvart fótbolta því í fótboltakeppni milli forleggjara og rithöfunda varð ég svo frægur að svara Agli Erni Jóhannssyni, sem setti son sinn inn á og braut þar með allar reglur leiksins, með því að setja minn eigin son inn á, en ég á tvo fótboltasyni. Sonur minn reyndi ekki á sig, var svo miklu betri en allir viðstaddir að honum þótti það ekki við hæfi, en svaraði þó syni Egils þegar hann urraði á hann: Þykist þú vera rithöfundur? með: Það væri gaman að sjá listann yfir bækur sem þú hefur gefið út.

Við höfðum gaman af þessu.

Svo reyndist sonur minn óþarfur, það var fokið í rithöfunda vegna drýldnislegra yfirlýsinga forleggjara um yfirburði sína, og milljón manns mættir en hann fór þó inn á og skoraði eitt mark í lokin að beiðni þjálfarans sem fannst skemmtilegra að leikurinn endaði með fjögurra marka mun en þriggja. Þetta tók son minn hálfa mínútu. Forleggjarar eru nefnilega fæstir góðir í fótbolta. Og hafa ekki eins mikið vit á honum og þeir virðast sumir halda. Einn forleggjari þakkaði Stebba fyrir leikinn og var almennileg og með alvöru íþróttamannslega framkomu og hún bar þá höfuð og herðar yfir hina sem þóttust vera í fýlu og tuldruðu eitthvað í barm sinn og hugsuðu til hefndar, og náðu henni sjálfsagt að endingu.

Þar áður þrumaði Kaktusinn yfir lesendum sínum að betur færi ef ákveðið forlag í Reykjavík hefði látið ógert að stofna óháða umboðsskrifstofu, eins og honum kæmi það við, því allir söluhöfundarnir væru með umboðsmenn og úr engu að moða og ekkert fyrir þetta auma forlag að gera annað en að fara að föðurlegum ráðum bókmenntaútgáfurisans sem Kaktusinn álítur sig vera. Eins og allir vita ganga bókmenntir út á sölutölur, umboðsmenn, „bransann“ og þvíumlíkt, ekki innihald, ekki nýjan sannleik sem má færa heiminum.

Þá fjölyrti Kaktusinn um hræringar í útgáfubransanum. Hverjum kemur slíkt við? Það er ágætt að ungur útgefandi sé ráðinn til starfa hjá forlagi og það er svo sem ekki alslæmt að lesa kjaftasögur um rithöfunda, sérstaklega þá sem Kaktusinn hefur hitt í eigin persónu (manus dei), en þetta kemur bókmenntum ekkert við og segir ekki neitt um erindi neinnar bókar.

Peningar. Það er það sem bókmenntir snúast um að mati Kaktussins. Frægð, fjölmiðlanærveru, velgengni, virðingu og verðlaun og peninga, æðst af öllu Nóbelspeningar, ekkert annað.

Það eru sem sé til kaktusar sem eru með öllu broddlausir. Hafa ekkert fram að færa um bókmenntir nema kapítalískan teknókratisma. Ég komst nýverið að því að broddlausir kaktusar eru ekki bara til heldur frekar algengir. Það ku vera hægt að færa sér efnislegar eigindir þeirra í nyt og éta þá en þeir eru ekki stútfullir af nærandi vatni eins og þessir sem stinga. Mér sýnist á öllu að réttasta þýðingin á þessari tegund kaktusa væri eitthvað á borð við fíkjukaktusar.

Má ég bjóða yður fíkjur?