Fjörutíu börn? Rangt.

það er meira en lítið ískyggilegt að evrópskar þjóðir á borð við Bretland, Frakkland og Þýskaland banni göngur til stuðnings ákveðnum málsstað, banni að sýna palenstínska fánann. Tjáningarfrelsið snýst ekki síður um réttinn til að tjá rangan málstað en göfugan.

Ísland er ekki eitt þeirra ríkja. Í gær sá ég trukk á götu með stóran fána á stöng. Ísland hefur fyrir margt löngu viðurkennt sjálfstæði Palestínu.

Þess vegna er mér fullkomlega heimilt að segja frá því hér að ekki eru neinar vísbendingar um að fregnir þess efnis að Hamas hafi afhöfðað 40 börn séu réttar. Eitt er að drepa börn, annað og á einhvern hátt óhugnanlegra að hálshöggva þau. Fréttin er áróður. Lygi. Báðir aðilar hafa drepið börn. Hvorugur svo vitað sé hálshöggvið þau, enda hefur Ísrael aðspurt hálfpartinn dregið fregnina til baka. Hvorugur málstaður er góður. Jafn áhugaverð og saga og menning beggja þjóða er.

Það er ekki hægt að standa með neinum í gagnkvæmum hryðjuverkum og stríðsglæpum. Það eru til lög um stríð, að brjóta þau heitir stríðsglæpur. Sannleikurinn er fyrstur til að fara og þvínæst fer tjáningarfrelsið við slíkar aðstæður. Þegar tjáningarfrelsið er farið er of seint að leiðrétta rangfærslur sem settar hafa verið fram sem sannleikur.

Allt gæti farið í bál og brand og fleiri þjóðir blandast í átökin. Ég missi hreinlega talsverðan svefn af áhyggjum af þessum hryllingi.

En að það sé um einhvern sómasamlegan blett að ræða þar sem maður getur staðið, með einum og gegn hinum — svo er ekki. Það er skelfilegt að drepa börn, hver sem gerir það.

Að standa með sannleikanum gegn lyginni er alla vega ærlegt.