Fólk fær stundum furðulegar hugmyndir.
Eins og til dæmis að horfa á sjónvarpið.
Ekki geri ég það og hef ekki gert í mörg ár.
Dægurmálaþátturinn Kastljós ákveður að í stað þess að fá eitthvert menntað fólk í vitrænar samræður muni það bjóða formanni Samtakanna 78 og stjórnmálamanni í spjall. Hver einasta hræða veit upp á hár hvaða skoðanir þau hafa, fyrirfram, án þess að ómaka sig við að hlusta á þau. Ekkert kemur fram sem áhorfendur vissu ekki fyrir. Hvergi er rýnt í flekaskilin í vestrænum hugmyndaheimi og ekki vottar fyrir vitrænu. Mikið áhorf er tryggt. Eins og allir vita er það hlutverk fjölmiðla að tryggja mikið áhorf.
Eftir Jerry Springer er það líka ekki lengur hlutverk fjölmiðla að segja frá viðburðum heldur búa þá til. Fyrst verður viðburðurinn, miðillinn býr hann til, síðan kemur umfjöllunin, almenningur sér um hana.
Jerry Springer bjó eitt sinn til morð. Að vísu ekki í beinni heldur eftir að hafa teflt saman fólki sem hasar var í að tefla saman, síðan tók það fólk sig til og myrti eftir á. Mér finnst það væri sjálfsögð tilraun, svona löngu eftir að fjölmiðlar hættu upp til hópa að greina frá viðburðum og sneru sér að því að búa þá til, og kúlmíneruðu í veruleikaþáttum, að reyna að sjá hvort ekki er hægt að fá einhvern til að drepa einhvern í beinni á Íslandi.
Það er að vísu búið að gera það úti í heimi. Spænskir fjölmiðlar eru með þeim ósmekklegustu í heimi og þeir hafa fyrir mörgum árum dundað sér við að sjónvarpa frá því þegar manneskja gengur af göflunum í beinni.
Það var mikil unun að horfa á. Þáttastjórnendur skemmtu sér konunglega.
En að horfa á sjónvarp á byrjunarreit á vegi smekkleysunnar? Það er bara hugmynd fyrir viðvaninga. Vanar manneskjur láta ekki draga sig á asnaeyrunum út í vandlætingarinnar forað, horfa ekki en lesa Markús Árelíus þess í stað. Eiginlega tekur því ekki að nefna að það taki því ekki að nefna það.