Gagnrýnin kynþáttafræði

„Gagnrýnin kynþáttafræði“ er svo sannarlega ekki nýtt fyrirbæri né sætir hún neinum tíðindum. En fyrir þá sem hafa lagt á sig að fylgjast með bandarískum fjölmiðlum er deginum ljósara að fyrirbærið hefur valdið töluverðum usla að undanförnu og rutt sér leið út úr akademískri samræðu yfir í almenna umræðu. Í sem skemmstu máli hefur hver fjölmiðillinn og hver þáttastjórnandinn á fætur öðrum tekið kast yfir „Critical Race Theory“ og látið eins og þar fari splunkunýir öfgar úr ranni hins bandaríska „Wokes“ sem þurfi að bregðast við.

Í sem skemmstu máli er gagnrýnin kynþáttafræði rannsóknarsvið sem á sér rætur að rekja til ársins 1995, hið minnsta. Raunar á fræðisviðið sér eldri rætur og byggir á kenningum lögspekings, Derrick Bell, sem á sinni tíð var brautryðjandi í kynþáttarannsóknum á sviði lögfræði. Maðurinn var fyrsti svarti fastráðni kennarinn í lögfræði við Harvard-háskólann. Raunar eru fleiri forvígismenn þessa fræðasviðs og Bell var aðeins einn af mörgum, hann fæddist árið 1930 og dó 2011.

Það er vegna þessara fræða sem frasinn „vandinn er kerfislægur“ varð vinsæll og þykir sífellt gáfulegri. Mér finnst hann óþægilegur svona einangraður og ekki benda til djúprar hugsunar, bara frasamennsku

Hann er ekki sérlega akademískur því jafnvel þótt fræðin byggi á að rannsaka hvernig kerfi geti byggt á ójöfnuði, hvort sem það eru stofnanir, stjórnsýslueiningar eða háskólanám, skýtur enginn loku fyrir það að kerfi sem byggja á sem mestum hugsanlegum jöfnuði geti verið yfirtekin af til dæmis þremur rasistum sem eru rasistar af allt öðrum ástæðum en þeirri að kerfið hafi innrætt þeim þá afstöðu og þannig allt heila klabbið orkað rasískt. Þá er einfaldara að kalla fólk bara rasista, og ef það er rangt er það bara rekið ofan í mann og heiðarlegir fræðimenn taka því fagnandi.

Gagnrýnin kynþáttafræði byggja líka á þeirri forsendu að ekki sé vísindalegur munur á kynþáttum, sem er rangt, munurinn er 0,3% og segir ekkert um gáfnafar og hæfileika og hreinn óþarfi að berjast gegn kynþáttamisrétti með því að afneita raunverulegum staðreyndum — fagna fjölbreytileikanum en afneita honum um leið. Þannig hefur það alltaf verið, vísindi verða falsvísindi, og öfugt, eftir því hvernig liggur á fólki, hvaða stemmning er í samfélaginu. 99.9% vísindamanna álíta loftslagsvána af mannavöldum en prósentubrotið er samt á því að það séu falsvísindi og enginn veit hvenær eða hvort hlutföllin snúast við eða ekki.

Spurningin er af hverju hægrisinnaðir fjölmiðlar hafa skyndilega fengið þessi fræði á heilann, svo mjög að haldnar eru mótmælagöngur gegn „Critical Race Theory“. Þeir fela ástæðuna illa, ef nokkuð: Þeir vilja kveða hið bandaríska „Woke“ í kútinn í eitt skipti fyrir öll. Þagga í leiðinni niður í öllum röddum um réttindi LGBTQ-samfélagsins og útrýma hverskyns hugleiðingum, hvað þá praktíseringu, á kynleiðréttingaraðgerðum. Þetta er heiftúðugur málflutningur. Talað er um heilaþvott á hvítum ungmennum og lagt til að foreldrar sem hafa ekkert á móti kynama- og kynsegin-vangaveltum barna sinna verði með lögum sviptir umgengni við þau. Ýmsir gætu þá kvatt afkvæmi sín, ég er reyndar einn þeirra.

Hitt er annað að bandaríska „Woke“-hreyfingin elur litlu minna hatur í brjósti sér í garð andstæðinga sinna og vill gjarnan banna tjáningu þeirrar skoðunar að kynin séu tvö en ekki t.d. 76. Ef maður gerir ekkert í þeirri skoðun, eins og þorri almennings í Bandaríkjunum, og verður engum að meini er hún prinsípelt jafnrétthá hverri annarri skoðun, til dæmis þeirri að jörðin sé flöt; hvað ætti eiginlega að vera hægt að gera í þeirri skoðun? Fletja út jörðina? Augljóslega er ólöglegt að hvetja til þess að þeir sem álíta jörðina ekki flata verði drepnir og ég veit ekki til þess að neinn hafi gert það. Hugmyndin um flata jörð gengur ekki bara þvert gegn öllum sönnuðum vísindum heldur er hún líka athyglisverð tilraun með reynsluvísindi og sýnir lifandi forvitni, þótt á villigötum sé. Það væri þreytandi að taka umræðu um hvort jörðin sé flöt en þrátt fyrir yfirþyrmandi bandarísk áhrif hef ég ekki séð henni skjóta upp kollinum á Íslandi.

Af hverju er akademískur angi bandarískrar kynþáttaumræðu skyndilega orðinn miðdepill pólitískrar umræðu? Af því að hvítum finnst þeir verða fyrir fordómum? Af því að fólk er þreytt á rétttrúnaði? Það er meira en svo. Þetta, sem og andstæða þess, er hluti af þeim aragrúa þrætuefna sem benda til þess að senn muni sjóða upp úr í Bandaríkjunum. Þeir sem ekki fylgjast með hægrisinnuðum miðlum ættu að prófa það því það er betra að vita hvað er í gangi í heiminum en að vita það ekki.