Galopið almenningi: Umræða um söguleg efni efld

Sögufélagið hefur þá stefnu að „ná til almennings“, vera „sýnilegt í samfélaginu, miðla efni og efla samtal um sögu og sagnfræði“ og „stuðla markvisst að samræðu í samfélaginu um söguleg efni.“

Þess vegna skýtur svolítið skökku við að það skrifar enginn í tímaritið Sögu án þess að fá fyrir það punkta til launabónuss hjá háskóla eða sækja um styrki, svo sem til Hagþenkis. Þess vegna er aldrei nein umræða um söguleg efni vegna neins sem þar er birt. Slagorð Sögufélagsins er vita innantómt, og gildir einu þótt margt gott megi segja um íslenska sagnfræði að öðru leyti. Sumt reyndar frábært.

Ekki batnar það þegar greinarhöfundur birtir harðorðan reiðipistil um hann mig — sem fengi auðvitað sléttar 0 krónur fyrir að birta í tímaritinu Sögu — og gerir það á lokaðri fésbókarsíðu sinni. Lokaðri. Reyndar skil ég vel að hann geri það, svo miklu auðveldara er að skrifa einungis innan um jábræður sína en að fara að verja eigin skrif opinberlega og á jafnræðisgrundvelli. Eins og slagorð Sögufélagsins vill í orði kveðnu að gerist. En gerist aldrei.

Ætli hann fari í manninn en ekki málefnið? Í ætt mína? Í hann mig? Sem hann hefur þegar hreytt í ónotum prívat? Þá nær það ekki lengra því ég fer ekki á svo lágt plan.

Sjálfsagt byggir hann enn á sínum takmörkuðu heimildum, sem teljast eiginlega fyrir byrjendur og tekur fimm mínútur að finna á netinu.

Svo augljós eru brigsl greinarhöfundar um nasisma að við ómaklegar skammir um greinarkorn Guðmundar, sem myndar rammafrásögn Sögu-greinarinnar, og rangtúlkanir, mjög augljósar, skeytir hann óljósum hugrenningatengslum um að þetta séu nákvæmlega sömu viðhorfin og lágu að baki nasískri læknasýningu á Íslandi. Þó veit hann vel að Guðmundur kom hvergi að þeirri sýningu. Og svo tönnlast hann á þeirri tilvísun, eldgamalli rangfærslu, að Guðmundur hafi kynnst mannkynbótum í Þýskalandi og einskorðað sig við þann lærdóm. Það er meinloka. Guðmundur lærði í Kaupmannahöfn og kynntist hugmyndunum þar.

Þannig verður niðurstaða rammafrásagnar greinarinnar, þeirri um Guðmund, sú að samkvæmt „vísindalegu“ flokkunarkerfi greinarhöfundar sé bara einn nasisti í hópi íslenskra fræðimanna, Guðmundur Hannesson. Ámóta hefur oftlega verið fleygt áður og er fyrir löngu orðið að þreytandi tuggu.

Og ekki eyðandi í þetta fleiri orðum, enda reiðilesturinn lokaður. Greinarhöfundur verður bara að fá að rasa út að vild á vettvangi sem er talsvert lokaðri en hann fordæmir Læknablaðið fyrir að vera í eigin grein.

***

Uppfærsla: Þegar maður nær loks að brjótast inn í hinn lokaða vettvang greinarhöfundar kemur fátt á óvart, nema ef vera skyldi málefnaþurrðin, reiðin og heiftin — ekkert af því með vísi að samræðu, sumt með öllu fráleitt. Eina „nýja“ heimild greinarhöfundar er sveigð undir vilja hans. Hann vitnar í ritdóm Guðmundar um doktorsritgerð Eiðs Kvaran, sonar Sigurðar Hjörleifssonar Kvaran, læknakollega frá Akureyri. Greinarhöfundur beinlínis sleppir úr tilvitnun setningarhluta til að fá hlutina til að merkja það sem hann vill í leit að nasisma. Tilvitnun: „En vilji nú einhver spyrja, hvort réttara sé hinn forni hugsunarháttur eða jafnaðarkenningar nútímans [og fullt frelsi í ástamálum,] þá er því fljótsvarað.“ Orðum innan hornklofa er sleppt. Frá hendi Guðmundar merkir þetta, í anda tímans og í beinu framhaldi af fullyrðingu um að erfðir séu staðreynd, að frá sjónarhóli mannkynbótastefnunnar sé heillavænlegra að ættin og forkólfar hennar velji fólki maka líkt og til forna en að fólk geri það sjálft eins og í nútímanum. Í útgáfu greinarhöfundar merkir setningin aðeins, svo sjá megi: Forn hugsunarháttur er réttari en allar almennar hugmyndir nútímans um jöfnuð. Sem er sögulega banöl og óþekkjanleg afskræming. Bolabrögð af þessu tagi eru ekki fræðimennska heldur andstæða fræðimennsku.