Hvernig getur það staðist að börnin lesi sér ekki til gagns þegar í boði eru höfundar eins og Fanney Hrund? Nú skrifar hún ungmennabækur en ekki barnabækur og er í þriðja sæti metsölulista Eymundson — byrja þá börnin bara allt í einu að lesa þegar þau verða ungmenni/unglingar en lesa sér ekki til gagns fram að því?
Kannski eru það fullorðnir sem kaupa bækurnar hennar, hvað veit ég, útgefandinn er Bókabeitan sem að mér vitandi á enga peninga til að auglýsa. En þó er staðreyndin sú að það eru einmitt fullorðnir sem lesa sífellt minna og minna af bókum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Fullorðnir lesa af skjá, hlusta kannski á hljóðbækur, karpa á netinu. Svona óvenjulega samsettur höfundur eins og Fanney virðist nú samt ná að skrifa bækur sem eru lesnar á meðan börnin eru notuð til blóra vegna Pisa-könnunar og engin Pisa-könnun er gerð á lestri fullorðinna. Ég er sjálfur reyndar að lesa annað, eftir að hafa verið veitt leyfi til að lesa eftir að læknir hafði lagt blátt bann við því, þar sem lestur útheimtir einbeitingu sem heilsufar mitt bauð ekki upp á nema á stuttum köflum. Almennt held ég að læknar hljóti fremur að mæla með lestri en hitt, ef þeir eru starfi sínu vaxnir. En mig langaði að lesa Fríríkið eftir sama höfund eftir að ég las upp með henni á sveitavargsslóðum ekki alls fyrir löngu, hugsa að ég geri það fljótlega, og þessi þríleikur hljómar vel og þessi blanda af lögfræði, búskap, sveit og heimshornaflakki er jafn óvenjuleg og hún var sjálf skemmtileg og upplesturinn áhugaverður.
Ég held að nær væri að skoða lestrarvenjur fullorðinna, já og ungmenna, fremur en að andskotast í börnunum fyrir að lesa ekkert. Börn gera eins og fyrir þeim er haft. Auðvitað eru fjölmargir sem lesa, sérstaklega meðan enn lifir í þeirri glæðu að gefa bækur í jólagjöf. Aðrir hafa hætt að lesa á síðustu 15 árum. Manneskja með bók í hendi gerir það eðlilegan hluta tilverunnar í augum barns að sitja í stól og lesa bækur. Að fá skammir fyrir ólæsi í fjölmiðlum gerir lestur fráhrindadi.