Góð manneskja

Á nokkru ríður að vera góð manneskja. En hvað er eiginlega góð manneskja? Það er ekki alveg einföld spurning. Svo mikið er víst að það eru ekki tengsl á milli neinnar hugmyndafræði, skilgreinanlegrar eða illa skilgreinanlegrar, og þess að vera góð manneskja, þótt mörg hugmyndafræðin hafi einmitt reynt að sannfæra áhangendur sína um nákvæmlega það. Engin tengsl eru á milli manngæsku og hugmyndafræði. Þessi og hinn er ekki góð manneskja af þeirri ástæðu að hún aðhyllist góða hugmyndafræði. Það hefur aldrei verið neitt samband þarna á milli.

Þvert á móti er gallinn við alla hugmyndafræði sá að nánast án undantekninga fylgir hugmyndafræði það að eiga óvin. Óvinur þessarar hugmyndafræði er þessi, hún eða hann, eða hinn eða þessi þarna. Þeir sem ná að hefja sig yfir hugmyndafræði sína með góðum persónulegum þroska ná að komast upp yfir þetta. Hinir, sem taka andstæðinga hugmyndafræðinnar bókstaflega, ramba gjarnan á varasama stígu. Fari maður að hata óvin sinn nógu heitt og innilega eru það gömul sannindi að maður breytist smám saman í nákvæmlega hann. Á þeirri leið eru nokkrar líkur á að maður hætti að vera góð manneskja.

Góð manneskja hreykir sér ekki af því að vera góð manneskja. Um leið og hún hreykir sér af manngæsku sinni er hún búin að jinxa það. Þá eru hennar góðu orð og góðu verk ekki lengur góð. Þau eru ekki annað en orðagjálfur og handarbaksverk, ef ekki handvammarverk, á ákveðinni leið að takmarki, ferð sem knúin er áfram af einhverju öðru og flóknara en manngæsku.

Að vera góð manneskja? Ég get ekki orðað það betur en Þorsteinn frá Hamri. „Dagleg nálgun / við dýrð glæpsins“ er „opin og öllum til boða“. Allir eru „á njósn hjá öllum, fjær eða nær!“

Svona eins og gengur. Og gekk þegar ljóðabókin Skessukatlar kom út.

Og eins og ég man það — sumar setningar Þorsteins límast við heilann en kannski rangminnir mig, hugsunin gildir, ekki það stafrétta — „gæti verið hollt …

… að reynast einhverjum eitthvað.“