Guðbergur Bergsson

Í eftirlitssamfélagi þar sem fylgst er með hverju fótmáli allra og upplýsingum safnað svo að nota megi til að selja fólki drasl er ekki einu sinni undankomuleið í dauðanum. Dauðinn er tilkynningaskyldur til alls kyns stofnana og að mér vitandi hefur ekki enn verið fært í reglugerðir að fólk megi gera það sem það vill með ösku ástvina sinna. Það er erfitt að komast undan útfararstofum og trúarsöfnuðum. Hvert sem maður fer og hvert sem maður reynir að flýja hefur gervigreindin í fullu tré við mann með látlausu eftirliti. Hún sér mann þar sem maður lúskrast heim með sínar eigin hugsanir í eigin höfði, að því er maður heldur. Og enginn sleppur.

Nema Guðbergur Bergsson.

Það kom engin minningargrein um hann í Mogganum og enginn nema þeim sem er ætlað að vita það vita einu sinni hvar hann er grafinn eða hvar ösku hans dreift. Sambýlismaður hans tilkynnti andlátið sjálfur og sendi ekki neitt út til fjölmiðla, að því er ég best veit.

Einhvern veginn gæti það ekki verið meira við hæfi en að Guðbergur snúi á sjálfan dauðann og serímóníur hans, láti sig hverfa, hætti ekki að vera frjáls, lúti engum reglum nema þeim sem hann sjálfur býr til og sé skítsama um allt, eins og hann hafði sjálfur að orði að rithöfundur þyrfti að vera.

Einu sinni finnst manni hafa verið til veröld þar sem hugsunin gat verið frjáls og listin frjáls og farið sínar eigin leiðir. Bók þurfti ekki að vera markaðsvara en var áskapað að vera fugl sem gat flogið þangað sem höfundinum sýndist. Hún gat brotið reglur, óhlýðnast markaðsstjórum, farið yfir línur, verið dónaleg, hámenntuð, víðsýn og vitur, stríðin og hrekkjótt, útundan sér og óþæg, andófskennd, ein á móti öllum, siðlaus og siðavönd í senn, sagt óþægilegan sannleika og slegið á létta strengi um leið, verið niðurrifskennd, ærslafull og alvörugefin — frjáls. Mig langar ekki að segja Guðberg Bergsson hafa verið síðasta frjálsa andófshöfundinn í íslenskri menningu, það er of útjaskað. Of margir hafa verið sagðir „síðasti“ eitthvað. 

Hver veit hvað verður? Örugglega ekki þeir sem halda mest á lofti hvað þeir viti mikið um það.

Yfirleitt hefur fólk kolrangt fyrir sér þegar það spáir fyrir um hvað muni lifa og hafa varanleg áhrif og hvað ekki. Á þessu eru engar undantekningar.

Það eru of margar bækur sem standa upp úr í höfundarverki Guðbergs til þess að það sé mögulegt að líta framhjá þeim, þótt margan kunni að langa það afskaplega mikið. Ég var ekki beinlínis uppnuminn fyrst þegar ég las Tómas Jónsson metsölubók, þrátt fyrir glæsilega kynningu á bókinni sem verki sem ruddi nútímanum leið í bókmenntirnar, en þetta er ómissandi bók, bók sem varð að skrifa. Óhjákvæmileg bók, öfugt við allar óþörfu bækurnar. Ég var hrifnari af Ástum samlyndra hjóna, Froskmanninum, Músinni sem læðist, Þeirri kvöldu ást sem hugarfylgsnin geymaSvaninum. Í raun er tilgangslaust aðð skipa bókum Guðbergs upp í stigveldi, hann skrifaði þær svo margar og án þess að það kæmi niður á gæðunum. Jafnvel þýðingar hans á Fernando Pessoa bera höfuð og herðar yfir flest ljóðakyns sem út kom það árið þótt ákaflega sérlunduð bók sé að forminu til.

 Eftir að vinstrinu hætti að þykja við hæfi að láta ögra sér, eftir að það vildi fremur láta klappa sér svo það malaði eins og kjölturakkar, varð viðtekið að halla orðinu á Guðberg, jafn vinsælt og það hafði verið bannað áður um nokkra hríð. Það eru til höfundar sem eru sagðir vera „umdeildir“ en það merkir ekki neitt, einhver hefur kannski sagt að nýjasta bók slíks höfundar væri hreinræktað eðaldrasl, sem hún hefur líka kannski verið, og markaðsdeildirnar strax tekið við sér og farið að kalla höfundinn „umdeildan“ vegna þess að þær hafa einhvern grun um að það geti verið gott og söluvænlegt. Svo eru til höfundar sem eru í raun og veru umdeildir, jafnvel inni í höfðinu á einni og sömu manneskjunni, vegna þess að verk þeirra hræra upp í sálarlífinu og tilvist þeirra er óþægileg. Alvöru höfundar, framúrskarandi höfundar. Af hverju hætti vinstrið að láta sér líka við Guðberg? Var það af því að hann var séní og það hugtak komst í slíka ónáð að fólk fór beinínis að keppast um að vera sem mest meðalmenni svo það stæði nú ekki upp úr að nokkru leyti, væri aldrei frumlegt í hugsun og hróflaði aldrei við neinu sem er borðfast? 

Einu sinni kenndi Guðbergur mér bókmenntir í forföllum.

„Ætlið þið að verða bókmenntafræðingar þegar þið verðið stór?“ spurði hann í frímínútum. Það varð fátt um svör. Hann brosti, brosmildur og stríðinn náungi sem hann var.

Einhverju sinni spurði hann hverjir í bekknum skrifuðu skáldskap. Nokkrir réttu upp hönd en ekki ég. Ég hafði ekki gefið neitt út, nema undir dulnefni, þótt ég hefði skrifað og skrifað frá því ég var ellefu ára.

Guðbergur svipaðist um í bekknum.

„En þú, skrifar þú?“ sagði hann þá við mig beint, af öllum.

Hvernig fór maðurinn að því að vita þetta?

 Ég hikaði.

„Ekkert af viti,“ svaraði ég loks.

„Það skrifar enginn rithöfundur neitt af viti,“ var viðkvæðið hjá Guðbergi, að því er virtist umhugsunarlaust. Hann uppskar almennan hlátur.

ég kinkaði kolli og var þakklátur þessari hvatningu sem ég hafði fengið til að skrifa, þótt það væri ekkert af viti.

það getur oft verið mest vit í vitleysunni, sagði hann einhvern tímann. Maðurinn gat verið alveg óborganlega fyndinn.

Hvaða vit er í því að skrifa fyrir eilífðina þegar öllum er ljóst að loftslagsmálin stytta hana fyrir mannkynið hraðar á hverju ári. Hvaða eilífið? Guðbergur skrifaði af óhemjandi þörf og tók langt fram úr öðrum.

Augnabliki eftir að eilífðinni lýkur verða allir samtímahöfundar með öllu gleymdir og einkum þeir stærilátustu. Þá verður haldin augnabliks þögn til minningar um Guðberg og þess sem má kalla að sönnu alvöru tign, listina sem bugtar sig ekki fyrir neinu eða neinum. Að því augnabliki verða engin vitni, ekki einu sinni fjandans vélar eftirlitssamfélagsins. Það verður nóg. Engin mun segja neitt af viti. Það verður við hæfi.