Í dag heimsæki ég aldagamlan fjölskylduvin sem álítur mig merkasta rithöfund þjóðarinnar. Hann er níræður en þetta eru engin elliglöp því hann hefur haft þessa skoðun lengi. Kannski er hann annar af tveimur mönnum sem hefur þessa skoðun. Reyndar er ég þó margmenni, eins og Eldjárn orðaði það.
Kannski maður fari að segja þetta gott af bloggskrifum í bili. Það er einfalt að ná sér í stóran lesendahóp, maður fer bara inn á Facebook og þá koma nokkur hundruð manns, en mér líkar ekki alveg að fólk álíti Zuckerberg vera þann sem veiti því allar fréttir en ekki sjálfstæðir miðlar. Margt er gott við Facebook en annað arfaslæmt.
Kannski færi ég mínum góða og skemmtilega vini verk sem hann á ekki eftir mig, jafnvel tvö, ég gæti fært honum þrjú, jafnvel fjögur. Síðan er spurning hvað verður um merkasta rithöfund þjóðarinnar, sem nú er skráður „fyrrverandi rithöfundur“ á já punktur is. Það skiptir ekki öllu máli. Ég get ekki hætt að skrifa, hef reynt það margoft, en útgáfa er svo annað. Það er hægt að hætta að gefa út. Yfir því þýðir lítt að fjargviðrast eitt eða neitt þótt maður sé ekki beinlínis „inn“ og hafi aldrei verið. Þannig er það bara. Það eru til foreldaðir pakkar af ófrjóum og leiðinlegum pælingum fyrir ýmsar stéttir, þar á meðal rithöfunda. Ég nenni ekki tilbúnum pökkum. Enda þótt beiskja sé aðeins ein af mennskum tilfinningum og allir hafi hana, að því marki sem þeir ráða að vissu leyti sjálfir hvert er.
Það verður ekki sagt að enga hafi ég fengið viðurkenninguna, einhver merkasti leikhúsmaður okkar daga fer ekki með fleipur. Framhaldið ræðst svo bara en ef maður getur ekki lengur lifað af einhverju lifir maður af einhverju öðru. „If it be your will,“ orti Cohen. Sama hér. Ég lýt bara hvarfi teningsins í sem mestri auðmýkt.
Og reyni að sitja á mér með blogg á næstunni. Það má gera ótalmargt skemmtilegt í tilverunni og ég hef einmitt verið að því og haft gaman af og synir mínir líka, einkum barnið, sem alla tíð hefur sagst ekki vera barn og aldrei hafa verið barn. Það er eins og mig rámi í að hafa verið barn. Sennilega er ég það enn.