Einhvern daginn í síðustu viku taldi ég fréttirnar og vefsíðu RUV og allar nema ein voru um íslensk efni.
Ástæðan er sú að það gerist ekki neitt markvert í heiminum nema á Íslandi. Það er óþarfi fyrir okkur að vera heimsborgarar og fylgjast með því allt gerist hér, heimurinn skiptir engu. Nema að því leyti að oft eru fréttir þar um íslensk efni, eins og gefur að skilja. Þær berast stundum hingað. Málið þennan daginn var málþóf á þinginu sem var mjög mikilvægt að fylgjast með og sérlega áhugavert og alveg óútreiknanlegt hvernig færi.
Þetta eins og annað kemur mér ekki við. Mig varðar ekki um hvað annað fólk hugsar, skrifar og segir, bara hvað ég sjálfur hugsa. Ef einhver segði að þetta væri smáborgaralegt ástand, sjálfhverft og plebbalegt myndi ég ekki taka undir. Því hvað kemur mér það við? Maður ætti aldrei að reyna að hugsa fyrir aðra. Það hefur bara öfug áhrif.