Enn heldur ískrið sem ég fjallaði um hér og hér áfram að vekja fólk til umhugsunar. Og breiða úr sér.
Auðvitað er ekki gerandi grín að því þegar hljóðverkfræðingur talar um lýðheilsuógn og fólk hyggst leita réttar síns, eins og segir í nýjustu fréttinni. Talað er um að þetta líkist tíðnisviði barnsgráturs. Það hlýtur að vera ansi óþægilegt að búa nálægt þessu og hljóðverkfræðingurinn veit greinilega hvað hann er að tala um.
Auðvitað er hægt að finna upprunann. Það eru til skýringar á öllu og slæm hugmynd að ímynda sér að svo sé ekki.
Tónninn er sagður 1600 riða. Ég heyri ekki betur en að tónninn uppi í Urriðaholti sé annar en á Laugarnesi. Þar uppfrá er hann samkvæmt mínum útreikningum hækkað A, eða A♭.
Veðurhljóð eru ekkert nýtt. Eða öllu heldur: Ný veðurhljóð eru splunkuný því allt er nýtt, alltaf. Þótt það beri kem af einhverju sem áður hefur heyrst. Mér þykir eðlilegt að hvert hverfi hafi sinn eigin tón og heyri ekki betur en að A♭-ið í Urriðaholti sé hreinn en dálítið flöktandi tónn, ekki kvartnóta. Í báðum tónum er málmkenndur blær og skýringin er auðvitað nauðaeinföld, hvar sem hana er að finna. Svefn er fólki lífsnauðsyn, hljóðverkfræðingurinn gæti ekki hitt naglann betur á höfuðið. Hljóð sem sviptir fólk svefni er slæmt, við hvaða handanverur sem maður kennir það.
Ég get þó ekki að því gert að mér finnst þetta minna á skáldsögu eftir Saramago. Eða einhvern þannig höfund. Barnsgráturinn, gæti hún heitað. Hún væri kannski aðeins of dæmisögukennd að einhverra mati og ekki eitt af hans allra bestu verkum, líktist ögn Plágunni eftir Camus og það væri hægt að verja þá skoðun að hún væri of mikil heimspekileg tilraunastofa í skáldsöguformi, þótt ég væri ekki endilega sammála því.
Í öllu falli teflir veruleikinn stöðugt fram einhverju sem minnir á skáldskap og skáldskapurinn skákar stöðugt með einhverju sem líkist veruleika — honum leyfist bara ekki að vera eins djarfur og veruleikinn því það veldur ótrúverðugleika.
Inverosimiltud er merkilegt orð, dregið af latínu, vērisimilis.