Hugmyndafræði er nánast ómótstæðileg. Þeir sem hafa völd aðhyllast eina slíka, vinir þínir hallast að einni og vinkonur þínar hallast að einni. Hvers vegna í veröldinni að standa gegn sannleikanum?
Sendiherra Ísraels í Bretlandi hafði á orði: Þetta er eitt af þeim fáu skiptum þar sem hið góða berst gegn hinu illa.
Lítið veit ég. Ég sem hélt að það væri einmitt einkenni á allri hugmyndafræði að litið væri svo á að hið góða berðist gegn hinu illa og að þannig hefði það alltaf verið.
Ekki það að það er til illska og það er til gæska. Kostirnir og lestirnir falla bara sjaldnast að hugmyndafræði. Hversu mjög sem óskhyggjan segir okkur að svo sé, því við viljum jú standa með hinu góða gegn hinu illa.
Hvernig hefur hugmyndafræði reynst undanfarnar aldir? Ég á við kerfisbundin og beinstífð kategorísering hugmynda svo andstæðukerfi ills og góðs gangi upp? Ég myndi segja — mér til voða — að krítískri hugsun hafi farnast talsvert betur. Sama hvað vinir þínir og vinkonur segja. Það er betra að vera frjáls en í fjötrum.
Regina Spektor fer ótrauð gegn Björk því hún er frá Ísrael og hefur hugmyndafræði sína þaðan. Ekki vissi ég það. Þó er Spektor frábær tónlistarkona og ég ætla ekki að halda þessu gegn henni, þótt krítísk hugsun, fremur en hugmyndafræði, segi manni einmitt að mannréttindabrotin séu broguð í aðra áttina, eins og hinn vestræni heimur virðist í óða önn að gera sér grein fyrir. Trúin flytur fjöll og færir þau aftur til baka og lætur eins og þau hafi aldrei haggast um eina spönn, en þó las ég einmitt í sama miðli að eina trúin sem flytur fjöll er trú Sjöunda dags aðventista en sá trúarhópur á eitt stykki fjall á Íslandi og stjórn hans hyggst flytja það til annarra landa til að nota með sementi í steypu gegn andmælum allra annarra í trúarhópnum. Heilt fjall. Flytja það úr landi. Steypa það upp. Hugmyndafræðilegar trúardeillur út af þessu fjalli munu vera fyrir dómstólum, sem er hvorki meira né minna en hilaríös.
Ég man kennisetningu Einars Arnar Benediktssonar: Okkar hugmyndafræði er að hafa enga hugmyndafræði.
Það er mín hugmyndafræði.
Og eftir því sem ég best veit hinna fjögurra eða fimm sem auk mín eru eftir af X-kynslóðinni.