Hórur og mellur og huldufólk

Fésbókin mín tók upp á að opna sig sjálf að mér forspurðum. Þetta er gert markvisst, fólki torveldað að láta af fíkn sinni með því að gera það flókið að afskrá sig og skrá fólk svo bara aftur inn óforvarendis. Ég fékk son minn til að skrifa inn lykilorðið og tókst að loka síðunni aftur með harðfylgi. Það er harður bransi að selja andlegt heróín. Ég er ekki huldumaður á fésbók heldur er ég ekki þar. Cold Turkey bara.

Hér má lesa skemmtilega færslu frá Þórdísi Gísla. Þetta er algengara en fólk heldur, að hulduhöfundar skrifi fyrir rithöfunda. Minnir mig svolítið á skáldsöguna Búddapest eftir brasilíska rithöfundinn og tónlistarmanninnn Chico Buarque. Buarque er að nálgast áttrætt, er frægastur fyrir tónlist sína sem hann heldur vandlega aðskilinni frá skáldsögunum. Hann hefur gefið út aragrúa af plötum og einar tíu skáldsögur. Ég hugsa að hann hafi samið þetta allt sjálfur, heiðarlegar hórur og merkar mellur og hulduhöfundafólk hvergi komið nærri.

Í Búddapest segir frá manni sem starfar við að skrifa bækur sem annað fólk þykist hafa skrifað. Hann fer á ráðstefnu hulduhöfunda, einskonar alheimsþing slíkra, og hefur farið áður. Hulduhöfundunum liggur svo mikið á hjarta á þessum eina stað í víðri veröld þar sem það má tala um bækurnar sem það hefur skrifað að það samkjaftar ekki og hver talar ofan í annan. Þannig að þetta verður svolítið þreytandi. Eða með öðrum orðum óbærileg munnræpa.

Frábær bók, Búddapest, andrík og fjörleg og mikil músik í textanum.

Færsla Þórdísar minnir mig líka á eitthvað það svæsnasta í öllum þessum bransa. Spænski Nóbelsverðlaunahafinn Camillo José Cela var ekki góður í að skrifa plott, hann var einfaldlega ekki plotthöfundur. Kannski hreinlega frekar andvígur plotti, það var og er enn algengt, og skáldsagan Uppfinning Morels eftir Bioy-Casares er svar til allra þeirra höfunda á fyrri hluta tuttugustu aldar sem héldu því fram að ekki væri lengur hægt að skrifa nýtt plott, þau væru öll komin.

En Cela var stílisti, hann var hreinlega stílmaskína. Stíllinn rann fyrirhafnarlaust upp úr honum. Þannig að þegar útgefandi hans var með nokkuð virt verðlaun, samkeppnisverðlaun fyrir innsend handrit að skáldsögum, þótti honum sem verðlaunin myndi setja niður við að velja eitthvert af handritum óþekktu höfundanna sem sendu inn en að þeim yxi ásmegin ef einhver frægur höfundur ynni, eins og fara gerir. Þannig að hann hringdi í Cela, sagði honum að hann hefði undir höndum handrit með mjög góðu plotti en frekar glötuðum texta, hvort Cela gæti ekki bara notað handritið sem skapalón og endurskrifað bókina með góðum stíl og líka góðu plotti.

Cela sagði já, umritaði bókina á mettíma og fékk verðlaunin. Konan sem skrifaði upprunalegu bókina var að vonum ekki ánægð, þetta heitir ritstuldur, og hún fór í mál. Henni tókst aldrei að færa sönnur á að nákvæmlega svona hefði þetta verið, ef ég man rétt.