Hreiðrin

Það er einfalt mál að finna flöt á hverju einasta efni og leggja hann út sem svo að um óheilindi sé að ræða. Óheilindi af einhvers hálfu, undirhyggju, lævísleg undanbrögð sem beri þegar upp er staðið vott um illsku einhvers og ómerkilegheit. Engrar sérstakrar kúnstar er þörf við þessa hugsun. Maður bara leggur saman tvo og tvo og fær útkomuna sautján og í rökleiðslunni felst engin sérstök list. Maður einfaldlega álítur alla aðra en sjálfan sig undirorpna fólskunni í henni veröld og fær út það sem manni sýnist. Enginn tekur eftir því. Rökleiðslan er hnökralaus.

Til þess þarf maður að vera sú tegund af kýníker sem kannski var aldrei til fyrr en á tuttugustu öld: Kýníker sem hefur enga hugsun aðra en þá að allir aðrir en hann sjálfur séu illskunni helgaðir.

Það er ekki merkileg hugsun.

***

Til er nokkuð sem á íslensku er ekki vert að nefna neinu öðru nafni en „hreiður“. Á ensku er það stundum nefnt „niche“. Það að búa sér til eða finna sér hreiður er ekki öflugra en svo, í menningarlegu samhengi, að maður finnur sér til dæmis uppáhalds tónlistarmann og finnst sem maður eigi eitthvað í honum og er í raun fyrirmunað að hugsa sér að einhver annar en maður sjálfur fái notið þessarar sjaldgæfu og forboðnu listar sem heyrir undir mann sjálfan, ekki alla. Til þessa þarf engin óheilindi, bara mennsku. Maður gerist það sem er nefnt einhverju nafni á einhverri tungu en hæfir varla annað orð á íslensku og í fleirtölu en „athyglisverðir“.

Þannig líður mér til að mynda gagnvart enska tónlistarmanninum Richard Dawson. Ein plata hans var snilldarverk, hinar kannski ekki til jafns, en mér er ekkert um það gefið að aðrir en ég og Benni sonur minn tak sig til og uppgötvi hann. Við Benni erum ekki hver sem er. Það er ekki á allra færi að uppgötva Richard Dawson. Við fundum hann, að vísu ekki sjálfir en okkur var bent á hann, og við bjuggum okkur til hreiður í honum.

Og svo erum við athyglisverðir. Við viljum ekki að neinn annar uppgötvi Dawson. Ef svo færi, hvernig færi þá um sérstöðu okkar? Við fundum hann fyrstir (ókei, næstir á eftir Jóni Halli bróður mínum) og við viljum ekki að hann eigi næsta hittara á Rás 2. Djísös, við erum öðruvísi en aðrir, við höfum sérstöðu og innan þeirrar sérstöðu er Richard Dawson.

Þannig verða hreiðrin til. Eitthvað er hreiður — „niche“ — og þar með má ekki hvaða fugl sem er gera sig heimakominn í hreiðrið. Hreiðrið má ekki vera — svo skipt sé yfir í sauðkindamál — almenningur eða safnborg. Þessar kindur eru eyrnamerktar okkur.

Því við erum mennskir.

***

Að allt öðru: Ef einhver vildi vera svo vænn að fara á stúfana og segja konunum að við séum farnir, höfum fengið leið og nennum þessu ekki lengur. Það er ekki einu sinni hreiður og ekki „niche“, það þvælist nánast fyrir hunda og manna fótum og langt er síðan það var fyrst fært í orð.