Hugleiðingar um borgarastyrjöld

Sífellt fleiri velta fyrir sér möguleikanum á borgarastyrjöld í Bandaríkjunum. Það er ekki einu sinni alltaf háð þeirri forsendu að Trump verði kosinn forseti. Í Bandaríkjunum eru ekki skiptar skoðanir, sundurlyndi og ólík viðhorf heldur ríkir hreint og tært hatur á milli fylkinga. Það skiptist ekki í norður og suður eins og í fyrri borgarastyrkjöld en þó eru landfræðileg atriði í reikningnum, stóru borgirnar og hið mikla dreifbýli, þar sem allt verður til sem fólk borðar. Fólk lætur sér ekki nægja að velta upp möguleikanum á borgarastyrjöld heldur ígrundar út frá ótal atriðum hvernig slík borgarastyrjöld muni fara, hægrimenn spá sigri hægrimanna og vinstrimenn spá sigri vinstrimanna. Óneitanlega hlýtur herinn að skipta miklu máli í þessu sambandi og hvar í flokki hann lendir því enda þótt meðal vinstrimanna sé að finna fólk sem vilji borgarastyrjöld og álíti ofbeldi nauðsynlegt er sitthvað til í því að hernaðarhyggja er fremur mál hægrimanna. Því eru nokkrar líkur á að stór hluti hersins berjist þeim megin og óþjálfaðir hermenn eiga litla möguleika gagnvart þrautþjálfuðum og þungvopnuðum hermönnum, þótt vel megi vera að þjóðvarðliðar sumra ríkja séu á öndverðum meiði.

Þetta eru kannski — og vonandi — ótímabærar hugleiðingar en það er mikið um þær. Nýir atburðir í Texas þar sem Hvíta húsið á í landamæradeilu við fylkið hafa blásið enn auknu lífi í þær. Hver um annan þveran lýsti því yfir að skollin væri á borgarastyrjöld, sem þó er ekki. En hver veit nema margir slíkir viðburðir geti í sameiningu stuðlað að einni slíkri.

Deilur um Ísrael og Palestínu auka enn á þessar hugleiðingar en sú staðreynd hversu stór hluti almennings fordæmir aðgerðir Ísraelsmanna kemur þvert á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Auðvitað er það Bandaríkjastjórn sem hefur vígbúið Ísrael. Mótmæli í fjórum bandarískum háskólum sem fóru úr hófi fram og krafist var útrýmingar á Gyðingum eiga sér andstæðu í tilhneigingu til að ritskoða hvern þann sem hugsar krítískt um framferði Ísraels og það hefur valdið atvinnumissi hjá allmörgum, meðal annars í háskólum. Og spennan bara eykst og eykst.

Þetta andrúmsloft smitast fyrst til Íslands. Galisískur vinur minn hafði einhverju sinni á orði að Ísland væri eins og tilraunastofa fyrir Bandaríkin um það hversu fáránlega hluti væri hægt að selja fólki þar: Íslendingar keyptu allt og jafnvel á undan Bandaríkjamönnum. Stríðslygar Ísraels, sem virka eins og þær séu fyrst og fremst til heimabrúks, og virki sem slíkar, sem getur verið til marks um hópheilaþvott heilla þjóða eins og þann sem Joost Meerloo fjallar um í ágætri bók sem nefnist því fráhrindandi nafni Nauðgun hugans. En svo trúir fólk í öðrum löndum uppspuna um hálshöggvanir Hamas, eins og það séu ekki nógu slæm samtök fyrir, og stórfelld hernaðarmannvirki sem falin séu undir spítala. Þar til ekki er hægt að trúa þeim lengur. En reyndar eru Íslendingar ansi einhuga um stríðið í Gaza, öfugt við Bandaríkjamenn. Enda eitt af fáum vestrænum löndum sem viðurkennir Palestínu sem ríki, þótt forvitnilegt væri að vita hvort svæðið það er, Vesturbakkinn eða Gaza.

Útkoman úr stríðinu á Gaza getur orðið misjafnlega slæm. Jafn hörmuleg útkoma og útrýming Palestínumanna er aðeins næstversta útkoman. Sú versta er að leikurinn berist til Pakistan, til Sádí-Arabíu, sem gæti hugsanlega átt kjarnorkuvopn þótt það sé ólíklegt, til Íran og til Jemen, sem þegar er orðið, og til Bandaríkjanna. Biden hefur lýst því yfir að mannfalli bandarískra hermanna á svæðinu verði hefnt. Ísrael á kjarnorkuvopn og Bandaríkin líka.

Mannréttindadómstóllinn er blessun en hann hefur ekki liðsafla til að framfylgja dómum sínum. Enginn hefur það nema Bandaríkin og þarlend stjórnvöld hafa þegar sýnt vilja sinn.

Ef til vill er það spurning um tvo eða þrjú ár, úrslit kosninga og stöðu efnahagsmála hvort borgarastríð brýst út í Bandaríkjunum eða ekki. Afleiðingarnar yrðu skelfilegar.