Markús Árelíus, stóuspekingur og, tja, keisari Rómarveldis — það merkir ekki að hann hafi ekki átt við nein vandamál að stríða, nema síður sé — nefndi ekki bók sína Hugleiðingar heldur Τὰ εἰς ἑαυτόν, sem myndi hljóma eitthvað á borð við þetta: Ta eis heauton, og merkja: Skrif til sjálfs mín. Hann hugsaði skrif sín ekki til útgáfu heldur voru það sem hann kallaði þau, skrif fyrir hann sjálfan, aðferðir til að halda hugarrónni í oft erfiðum kringumstæðum, minnispunktar um hvernig væri hægt að lifa, um það hvernig væri hollt að hugsa.
Nú er kannski ekki hægt að skrifa fyrir sjálfan sig á tölvu, þótt það sé hægt með penna, og ég geri það. Einhvern tíma uppgötvar einhver að þessi skrif mín séu til og þá gæti svo sem vel hent að ég yrði hneykslunarhella á Facebook, þar sem ég hef ekki verið í marga mánuði og hef ekki hugsað mér að snúa þangað aftur. Den tid, den sorg.
Hvernig er eiginlega hægt að hugsa og öðlast hugarró? Ég er ekki frá því að allt sem í þeim efnum er kennt í dag og notað sem meðferðarúrræði byggi á stóuspekinni. Og ég er ekki frá því að þótt ég sökkvi mér nú sem aldrei fyrr í stóuspeki hafi ég alltaf verið bölhyggjubjartsýnismaður, sem gæti eins verið þýðing á stóuspeki. Þeir róuðu ekki hugann endilega með einföldum aðferðum, banal bjartsýni, heldur einnig og ekki síst til dæmis þeirri aðferð að sjá sér fyrir hugskotssjónun allt það versta sem gæti gerst, framkalla það eins og veruleika í huganum, gera það algerlega lifandi og vera búnir að hugsa það til enda og sætta sig við það þegar það versta kom svo heim — eða láta það koma sér ánægjulega á óvart ef það gerði það ekki.
Hug-leiðingar. Að leiða hugann á einhverjar slóðir sem eru ekki endilega til, alla vega ekki sem troðnir slóðar. Það er ágætis titill á bók. En samt röng miðað við það sem höfundurinn sjálfur skrifaði.
Það má reyndar nefna að á einhvern hátt má segja að það í vestrænni siðmenningu sem er ekki byggt á misskilningi er byggt á þýðingarvillum. Í boðorðunum sem Móse kom með ofan af fjallinu á töflum slínum stóð alls ekki: Þú skalt ekki mann deyða, né heldur „Thou shalt not kill“ eins og frægasta enska biblíuþýðingin hefur það. Rétt þýtt, að því er mér skilst, merkir setningin: Þú skalt ekki myrða. Dráp eða víg voru eftir sem áður heimil. Það er talað um „mannfall“ í stríði en ekki fjölda myrtra og það tengist því að boðorðið sjálft bannar ekki að drepa fólk heldur leyfir ríkisvottuð dráp, svo sem í stríði, og víg í sjálfsvörn og ýmislegt þar fram eftir götunum.
Maður kannski virkar meira og minna úti í móa að vera að tala um gamla stóuspekinga og boðorð Biblíunnar en það er nákvæmlega í þeim móa sem ég er staddur og þar sem ég vil vera.
Leiðingar? Væri það ekki gott orð? Gæti haft eitthvað með rafmagn að gera.