Hvað ef?

Hvað ef forsendur skáldsögunnar eru brostnar og hún á ekki lengur erindi sem form? Ekki bara vegna minnkandi athyglisgáfu fyrir löngum, flóknum og margbrotnum texta sem getur gert mann auðugri í anda heldur vegna þess að tíminn hefur úrelt hana sem slíka?

Á Íslandi eru til svona sjö manns sem gætu haft áhuga á þessu margumtalaða efni.

Forsendur skáldsögunnar eru þessar: Ég þykist vera einhver annar en ég er og þú samþykkir, rétt á meðan lestri stendur, að trúa því.

Forsendur ljóðlistar eru allt aðrar. Nokkurn veginn þessar: Ég þykist vera ég sjálfur í textanum og þú lætur eins og þú trúir því ekki.

Sem gengur alveg upp enn þann dag í dag.

En hvað ef forsendubrestur hefur orðið í skáldsögunni? Hvað ef fólk getur ekki lengur þóst trúa því að einhver annar en höfundurinn tali og segi skoðun sína? Hvað ef þegar upp er staðið álítur lesandinn að höfundur hafi brugðið á sig nokkrum grímum til að koma sinni eigin skoðun á framfæri? Þá er formið auðvitað ónýtt. Nema auðvitað ef skáldsagan er slæm og þetta er einmitt tilfellið, allar persónur eru málpípur höfundar. Og margt í formi skáldsögunnar hefur gefið þessari krísu undir fótinn, og ég undanskil ekki sjálfan mig: Þetta er í alvöru ég að þykjast vera einhver annar að þykjast vera ég, og svo framvegis.

Hvaða form er þá ekta? Ljóðið, örugglega. Tónlistartextar eru líka á einhverjum öðrum slóðum en þykjustuleiknum. Sem hefur ekkert endilega alltaf verið einkenni skáldsögunnar, Sultur eftir Knut Hamsun gengur út frá því sem gefnu að allir lesendur viti að höfundur er að segja eigin sögu. Kanye West gengur út frá þeirri forsendu að allir hlustendur hans viti að hann er snarvitlaus og hefur gefið nasisma undir fótinn og leikurinn sem hann leikur í textum sínum? Tja, svona leikur: Ég er að láta eins og ég sé ekki alveg frávita, viljið þið vera svo væn að trúa því sem snöggvast, ellegar: Ég er ekki eins vitlaus og ég þykist vera í textum mínum en látið sem þið trúið því. Eða bara: Hverjum er ekki fokk sama hvað ég þykist vera og hvað ég er, hlustið bara á bítið?

Við vitum samt að Kanye West er hluti af kerfinu. Hann er það sem dáleiðir okkur eins og hænur til að halda að nákvæmlega svona eigi hlutirnir að vera, hann eigi að birta myndir af kærustu sinni nokk nakinni og lýsa yfir stuðningi við einhverja allra hæpnustu pólitík sem er að finna í samtímanum, út á það gangi leikurinn. Hann er ekki krítískur Lorca sem leiðir þjóð sinni fyrir sjónir að hún veður í villu og svíma, svo mikið er víst. Málið er meira að „hafa gaman af honum“ og láta þar við sitja. Alveg öruggt er að hann nær til miklu fleiri en einhverjir skáldsagnahöfundar, hvað þá ljóðskáld.

Mér veldur þetta undrun. Á sama hátt skil ég ekki pálmatréð í garðinum. Hvað hefur það að gera við krónuna sem er efst í því, rétt fyrir neðan laufin? Er vatn í henni? Ég skil ekki heldur fiðrildin, svo litskrúðug og falleg sem sveima um garðinn. Er það satt að þau eigi sér bara einn dag að lífi og svo séu þau öll, flöktandi í kringum okkur eins og jólaskraut fyrir allar árstíðir? Vita breve, fegurð og tortíming?