Hvað er hljóðbók?

Spurningin virkar kannski augljós og óþarfi en hljóðbók er „kapítalísk snilld“ eins og einn rithöfundur orðaði það (mér sýnist fréttin vera horfin en hér er vitnað í hana). Snilldin felst í því að höfundur fær ekkert borgað, hljóðbókaforlag biður ekki endilega um leyfi, spyr ekki höfundinn sjálfan beint um höfundarrétt og hlunnfer bókaforlög líka.

Þetta er hlægilegt og skammarlegt“, segir sá ágæti bloggari Kaktusinn og betur verður það varla orðað.

En ég er að hugsa um form. Hver er munurinn á hljóðbókum Hildar Knútsdóttur sem hér efst er vitnað í og hlóðbókum Sigursteins Másonar, sem jafnan trónir efstur á sölulista Storytel? Munurinn er sá að bækur Hildar eru skáldsögur sem búið er að lesa upp á band. Hljóðbækur Sigursteins eru … Tja, hvernig má segja þetta kurteislega? Þær eru útvarpsþættir. Með fullri virðingu fyrir Sigursteini sem dagskrárgerðarmanni. Þetta eru gjarnan hlaðvarpsþættir sem byggðir eru á heimildavinnu, nota sér eitthvað af þeim hljóðheimi sem má búa til í útvarpi, en þetta eru ekki bækur, þetta eru útvarpsþættir.

Gætum við þá hugsað okkur að hljóðbók sé eitthvað á borð við útvarpsleikrit? Eitthvað í ætt við Under Milk Wood eftir Dylan Thomas sem hefur undirtitilinn: A Play for Voices? Nei. Leikrit Thomasar er útvarpsleikrit. Hjá hljóðbókasafninu er hluti af þjálfun lesara að venja þá af að lesa með of leikrænum tilburðum. Thomas var reyndar útvarpsmaður líka en menn dufla í ólíkum og skyldum formum.

Ég veit að það eru til metnaðarfullir og góðir undirverktakar hjá Storytel sem hafa vit á því sem þeir eru að gera og gera eins vel og þeir geta. Af fagmennsku og trúnaði. Það breytir því ekki að hljóðbók, ef höfundur les ekki sjálfur, er eina tegund bókmennta þar sem höfundurinn fær nánast ekkert greitt, ef hann er þá yfirleitt spurður leyfis, og sala hljóðbóka bítur af sölu hans eigin bóka á fýsísku formi.

Segjum sem svo að hljóðbók sé eitthvað skyld rímnakveðskap í baðstofunum hér áður. Einhver flytur sögu við ólíkar stemmur og sagan er í formi rímu eða rímna, þótt stemmurnar geti verið ólíkar. En þetta er ekki hljóðbók eins og við þekkjum þær. Ein manneskja, Ragnheiður Ólafsdóttir, vinnur að gerð slíkrar hljóðbókar, fleiri ekki. Eitthvað í áttina við þetta vann ég sjálfur fyrir Hlusta.is þar sem þeir þættir texta sem felast innan um venjulegan prósa en eru kvæði eru kveðnir, sem og þau kvæði sem standa stök og sér. Hún er hér.

Mætti hugsa sér að hljóðbók sé lesin af gervigreind, sé saga sem fjallar um glæp og er samin af gervigreind? Auðvitað. Þannig hljóðbækur eru í boði og raunar er stefnan sú að leggja niður alla upplesara og láta gervigreind lesa í staðinn. Það getur verið snúið mál að sjá við slíku, ef maður hefur meinta og ísjárverða meðvitund gervigreindar í huga. Ein smásaga hefur verið skrifuð um þessa þróun, „Gullöldin“, hún var hluti bókar minnar Dyr opnast en sú bók fór í Risamálheildina svokölluðu, að hluta, en leyfi til þess var fengið með því að setja á langt mál í bréfi sem RSÍ sendi, enginn las en var með þeim agnúa, sem þrautavaratilraun verkefnisins, að ef bréfinu var ekki svarað var gengið út frá „ætluðu samþykki“. Sem ekki stenst landslög svo miklu munar, í þeim er hvergi minnst á „ætlað samþykki“ nema þegar gert er ráð fyrir að látinn einstaklingur mundi vilja gefa úr sér nýrað til sjúklings sem á því þarf að halda. Ekki að óhætt sé að seilast í búkinn á lifandi höfundi og taka úr honum nýrað. Svo margir löglærðir menn hafa vottað þetta fyrir mér að engu tali tekur, þeim finnst þetta bara fyndið. Ég sagði mig úr Risamálheildinni í sumar, er væntanlega einn af fáum höfundum sem það hefur gert. Og ef hljóðbækur eru slíkar bækur hef ég ekki áhuga á þeim, þótt þeir megi vel njóta þeirra sem vilja.

Getum við fetað okkur áfram fyrri leið eftir rímum og sagt að hljóðbók sé eitthvað sem stendur miðja vegu milli tónlistar og lesins texta og það sé algerlega háð rithöfundunum sjálfum hvað þeir gera við þetta form? Að það megi kveða rímur og lesa á víxl, syngja tónlist, bæta við effektum, hljóðfæraspili, leikspili, óvenjulegri raddbeitingu, hreinum hljóðfæraundirleit, undirspili eða hverju sem maður vill við hljóðbók sem þó er í grunninn lesinn skáldleg heild?

Já. Það er mín skilgreining. Það segir manni enginn hvað hljóðbók er nema maður sjálfur. Að sjálfsögðu kemur ekki til greina að gefa höfundaréttinn af slíku verki fremur en af öðrum bókum, hvorki fyrir bókaútgefendur né höfunda.

Þess vegna verður hljóðljóðabálkur minn Ofviðrið fáanlegur á öllum hugsanlegum streymisveitum — nema Storytel.