Ég ljósmyndast sífellt verr. Það kann að eiga sér fótógenískar eða tæknilegar skýringar, snúast um uppstillingu og sjónarhorn, ljós og skugga. Það kann líka að stafa af því að ég verð sífellt ljótari, feitari, hrukkóttari, gráhærðari, eiginlega alger hryggðarmynd. Hvað varð eiginlega um vor lífsins og grænu laufin á smáfuglafylltum trágreinunum? Gyllinæðin kemur ekki fram á ljósmyndum né heldur nýrnabilunin og það sést ekki hve bein mín hafa rýrnað og ekki heldur hversu útbrunninn ég er, nema ef ég tala, og þótt ég geri mitt besta til að dylja það að ég man ekki hvað nokkur einasta manneskja heitir og er þó ekki einu sinni með alzheimer og ekki einu sinni lengur flogaveiki. Ég er fremur mislukkaður sem rithöfundur, eiginlega að langflestu leyti, og þjakaður af öfund í garð annarra rithöfunda sem fá verðlaun og eru á sífelldum þönum á milli viðtala og alþjóðaráðstefna því ég myndi svo sem í sjálfu sér elska sviðsljósið, ef í mínu tilviki gerði það ekki eins áberandi hvílíkt hrak ég er orðinn. Ekkert sviðsjós fyrir mig, takk, það myndi bara brenna upp það sem eftir er af mér. Ekki að ég sé að biðja um vorkunn, ég verðskulda hana ekki. Hún er af skornum skammti og það ber ekki að spandera henni í vitleysu. Ég kem engu í verk, bíð hér eftir að veggirnir máli sig sjálfir og sérsmíðuðu bókahillurnar klári sig sjálfar. Rýk í einhver bókmenntaverk með offorsi og hendi þeim svo. Þetta væri í lagi ef ég hefði húmor fyrir því en ég er með öllu húmorslaus og þyki með leiðinlegri mönnum hvar sem ég kem. Ég er boginn í baki og hokinn, ekki af reynslu, og þegar farfuglarnir koma auga á mig fljúga þeir burt, sama hvaða árstíð er og sama í hvaða átt, þeir myndu fljúga á Norðurpólinn þess vegna, þeir steingleyma allri eðlisávísun. Jafnvel þótt þeir hafi aldrei talist til farfugla áður. Hvert fór atorka mín og hvert fór krafturinn?
Ég spyr mig eins og Jóhann Jónsson í ljóðinu „Söknuði“ — en nenni bara ekki að flækja málin með óþarflega mörgum sérhljóðum:
„Hvar hafa dagar lafs þans lat sanam glatað?“
Eða: „Hvert fór vorið mitt?“ eins og byrjað var að syngja yfir mér talsvert áður en ég fæddist: