Hvunndagur

Það drífur fátt á daga mína sem er í frásögur færandi. Yfirleitt skrifa ég um abstrakt hluti á þessum vettvangi. Í gær fór ég í mat með börnum mínum til móður þeirra. Það var gaman. Í dag kom skáldið sjálft í heimsókn og dró mig síðan út á kaffihús þar sem við fengum okkur súrdeigsbrauð með osti og vatn. Síðan fórum við í bókabúð. Það lá vel á hinu ljúfa skáldi og hann hafði frá ýmsu að segja og ég reyndar líka þegar til kastanna kom. Gönguferðir eru góðar. Ef til vill tek ég þær upp sem daglegar athafnir. Ég kvaddi skáldið á Skólavörðustíg með tilvitnun í Markús Árelíus. Þá var hann búinn að semja um mig ljóð í huganum og flytja mér það.

Það er of þröngt í húsinu og ég þarf að koma þessum aukahlutum sem nýverið hlóðust upp fyrir einhvers staðar ef ske kynni að ég öðlaðist meiri kraft og gerði gangskör að því að koma því í stand, mála veggi, sparsla, þvo gluggatjöldin, laga sturtuna, hringja í pípara, áður en brestur á með þakviðgerðum, rándýrum, gluggaskiptum og bárujárnsskiptum. Á þriðjudag sæki ég eldri son minn og félaga hans á flugvöllinn. Einn þeirra er víst með spurningu til mín. Eða hugsanlega. Ég veit ekki hvort ég hyggst svara henni eða brydda upp á efninu en það er merkilegt hvað einstaka en sennilega örfáir háskólakennrar, kannski bara einn, þykir við hæfi að segja í tímum þótt það rúmist varla innan akademísks frelsis, sem er takmarkað eins og allt annað frelsi, akademíu er eins og öðrum bannað að hvetja til ofbeldis, níða skóinn af hópum, tjá sig þegar persónulegur hagsmunaárekstur á í hlut, fara með barnaníð og fleira af ámóta eðlilegum toga, þótt tjáningarfrelsið sé alla jafna heilagt. Mér finnst peningum okkar skattgreiðenda ekki vel varið í að borga fólki laun við að rægja íslenska rithöfunda, ekki verk þeirra heldur persónu, við nemendur sína án þess að þeir geti borið hönd yfir höfuð sér. Þeir sem slíkt álíta eðlilegt þurfa þó alla vega að vakna og vera eins og þeir eru og það er þeim kannski bara nóg að launum.

Peer Gynt hljómar í íbúðinni og hver veit nema einhverju sinni hljómi hann í annarri íbúð sem ég eignast, en ekki í bili. Af og til dettur mér í hug að nú þurfi ég að hringja í mömmu en fljótlega rennur upp fyrir mér að það get ég ekki gert. Sá sími hefur ekki verið fundinn upp sem nær út yfir gröf og dauða. Þótt gamlar sögusagnir hermi að Tesla og gott ef ekki fleiri vísindamenn hafi einmitt gert tilraunir með slíkan síma.

Ég er að horfa á nokkrar myndir og lesa nokkrar bækur. 39 þrep er ein af myndunum. Allmargar heimildamyndir um söguleg efni eru hinar. Þrepin finnst mér síðri en þegar ég sá þau síðast og gömul mynd með Vincent Price í aðalhlutverki, Síðasti maðurinn á jörðinni, eldist betur, eða kannski er ástæðan bara sú að ég hef ekki séð hana. Allir eru orðnir zombie nema einn sem hefur daglega rútínu sem felur meðal annars í sér að moka hræjum á haugana og setja hvítlauk á dyrnar og spegil, því uppvakningarnir þola ekki að sjá sjálfa sig í spegli. Fremur en svo sem við flest. Endanleg og alger sjálfsþekking er ekki óhjákvæmilega æskileg.

Maður nokkur í Frakklandi, Marcel Petiot, læknir að starfi, gerðist fjöldamorðingi á stríðsárunum þegar gott tækifæri gafst til þess. Um hann er ágæt heimildarmynd á youtube. Illskan ríður ekki við einteyming og mesta áskorunin af þeim öllum að skilja hana, hvernig hún verður til og yfirtekur fólk. Petiot er frekar óskiljanlegur, jafnvel í samhengi við útrýmingarbúðir tímans. Sú breyting hefur orðið á síðustu árum að ekki er lengur hægt að sjá fótalaust fólk á götum Evrópu við betl og ekki lengur hægt að sjá með eigin augum manneskju sem hefur lifað af helförina. Þá er stutt í gleymsku, það er ekki það sama að fræðast um þetta og að sjá það. Og þegar gleymskan nær yfirhöndinni fara hættulegir tímar í hönd.