Í búðinni

„Vertu ekki svona dramatískur,“ sagði konan í búðinni við unglinginn sem var himnalengja.

„Dramatískur? Ég var að greinast með krabbamein sautján ára!“ svarað unglingurinn.

Fólk í búðinni kinkaði kolli. Það voru breyttir tímar. Ungdómurinn sífellt sífrandi yfir öllu.

Maðurinn með derhúfuna tók tvö, þrjú eða fjögur kíló af sykri úr hillunni og setti í körfu sína. Líf hans skorti eitthvað sætt og hann hafði hugsað sér að bjarga því fyrir horn með því að liggja á bakinu og sturta í sig sykri.

Unga konan á háu hælunum var bara að skoða. Í kjörbúð. Fólk fylgdist með henni skoða. Fáeinir fylgdust með öðrum sem fylgdust með konunni sem var bara að skoða.

Reiða konan sem vildi fá endurgreitt þar sem hún hefði keypt útrunnar vörur tók við seðlunum sem afgreiðslumaðurinn rétti henni og hlustaði á ræðu hans um að allt ætti sinn tíma án þess að virðast botna neitt í henni. Hún vildi ekki krefjast afsökunarbeiðni í stað þessarar óskiljanlegu ræðu því hún óttaðist að þá yrði kannski lítið að marka afsökunarbeiðnina. Hún velti fyrir sér hvaða óradýpi gætu falist í orðum afgreiðslumannsins.

Maðurinn í horninu út við mjólkurkælinn var í óða önn við að ljúga að sjálfum sér í huganum. Aðferð hans var að margfalda allt með fjórum. Hann reyndi nú að deila með sjö til að gera ekki of mikið úr hlutunum.

Góði sendiboðinn kom ekki upp orði.

Umrenningurinn hafði stungið á sig kardimommudropum og slapp út um dyrnar meðan á þessu stóð. Hann var hamingjusamastur allra.