Lengi hefur verið haft á orði að íslenskur lesháttur felist í því að leita að fyrirmyndum í veruleikanum í öllum skálduðum texta og hafa símaskrána sér við hönd. Það er ekki ólíkleg kenning um smáríki.
Það er spurning hvort íslenskur lesháttur feli ekki líka í sér, í fámenninu, að það sé tengt því hvernig maður kunni við höfundinn persónulega hvernig maður les. Ýmsir hljóta að kannast við það að heyra fyrir sér rödd höfundarins þegar maður les texta manneskju sem maður þekkir persónulega. Það getur farið eftir því hversu vel maður þekkir höfundinn og verið í mismiklum mæli en kannski eiga rödd og texti í óhjákvæmilegu sambandi sem ekki verður sundur slitið.
„Rödd skáldsins“ hljómar kannski fornfálega og er kannski ekki besti lykillinn að skáldskap, og varla er það ákjósanlegur lestur að kunna ekki að meta verk höfundar því maður kann ekki við hann sjálfan, það ætti maður að forðast í lengstu lög. En hvað um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi? Er ekki ljóðlist hans nátengd hans eigin upplestrarrödd? Sem var mjög góð og er til á vínyl-plötu sem ég á einhvers staðar. Þorsteinn frá Hamri er til á geisladisk. Hvers vegna nefndi ég Davíð? Ekki bara vegna þess að ég hef alltaf haft hann í metum heldur einnig vegna þess að ég sit í kjallaranum í húsi hans.
Meðan umfjöllun um bókmenntir blandast ekki svo mjög persónu höfundar er ekkert óeðlilegt að lestur á skáldskap í smáríki blandist svolítið saman við persónu höfundarins og reynslu þess sem les. Það er þó illt ef það er bara umtal sem hefur áhrif.
Þótt best sé að alla vega reyna að láta ekki glepjast af öðru en textanum sjálfum. Rétt eins og eðlisfræðin samþykkti forðum að það væri rétt að reyna að sýna hlutlægni við vísindatilraunir enda þótt tilraunir hefðu einmitt leitt í ljós að alger hlutlægni er útilokuð, öreindirnar skynja hug vísindamannsins, þótt það sé fáránlegt.
Hm. Vafalaust er þetta flóknara.