Japan og Bandaríkin

Japan var lokað land frá því snemma á 17. öld þar til um miðbik 19. aldar. Algerlega aflokað frá Kína, sem leit á eyjuna sem eins konar afkvæmi sitt, enda hafði japanska ekki átt neitt ritmál og tekið kínversku táknin og gert að sínum með örlitlum breytingum, svolítið meiri bugðum, svo ekki er heiglum hent að sjá muninn. Japan átti í engum viðskiptasamböndum við Vesturlönd, öfugt við Kína. Það var með offorsi að komið var á viðskiptum við Japan. Á árunum 1853-54 voru gerðar árásir frá sjó og það var bandaríski herinn sem stóð að því að opna landið fyrir viðskiptum.

Veruleikinn sem blasti við kom Bandaríkjamönnum á óvart. Japanskt samfélag hafði staðið í stað frá því á 17. öld. Að mörgu leyti var þetta gott samfélag, hefðirnar voru sterkar, hlutirnir í föstum skorðum og öfugt við Kína hafði landið ekki glatað sjálfdæmi sínu fyrir Vesturlöndum, landsmenn ekki stráfallið af sjúkdómum sem heimsvaldastefnan breiddi út hvert sem hún fór, hefðirnar ekki lagðar í rúst og yfirteknar af vafasömu kristniboði og landið ekki rænt. Vopn, byggingar og búningar voru í 200 ára fjarlægð frá hinum vestræna heimi og búningarnir voru nokkurn veginn eins og þeir eru í uppfærslu Íslensku óperunnar af Madame Butterfly, sem og byggingarnar.

Madame Butterfly er ádeila á heimsvaldastefnu og kúgun kvenna. Á framkomu Bandaríkjamanna gagnvart Japan, gagnvart konum. Óperan fjallar um bandarískan hermann sem kemur til Japan, giftist konu, barnar hana, fer á braut, kemur aftur löngu síðar í fylgd nýrrar konu og tekur barnið af konunni. Við það missir hún vonina og með því lífslöngunina. En hún hefur þó sitt japanska stolt og ristir sig á kvið fremur en að láta smánina yfir sig ganga og lifa áfram.

Harmleikur Japan átti eftir að verða verri en í þeim heimi sem lýst er í Madame Butterfly, einkum í samskiptum við Kína, sem var að verða þrælabúðir. Japönsk stjórnvöld fara versnandi samfara því sem landið nútímavæðist. Ekki síst vegna þess að Japanir voru staðráðnir í að láta ekki fara með sig eins og Bandaríkjamenn höfðu farið með Kína: Stjórnvöld verða herskárri, keisaraveldið beinskeyttara og herinn harðsnúnari. Japönsk auðmýkt víkur fyrir stolti og heraga. Til þess að koma í veg fyrir það versta þurfti að hertaka hluta af Kína.

Það versta sem gerist í stríðinu er „Eining 731“. Mannfall í Kína á stríðsárunum og aðdraganda þeirra er á að giska á milli tíu og tuttugu milljónir. Drjúgur hluti af þessum morðum fór fram á svokallaðri „Einingu 731“. Svo ofurhröð hafði nútímavæðing Japans orðið að landið var orðið iðnaðarstórveldi. Í kringum aldamótin 1900 unnu Japanir eitt stríð gegn Kínverjum og annað gegn Rússum, öllum að óvörum. Þetta blés þeim miklum anda í brjóst og hann byggðist meðal annars á kynþáttahyggju, þeirri hugmynd að Japanir væru æðri öðrum þjóðum. Japanir álitu að Vesturlönd sætu um að arðræna landið — sem var alveg rétt. Það verður til kvenréttindastefna í Japan, konur vilja út á vinnumarkaðinn, löngu á undan Íslandi.

Það sem fram fór á „Einingu 731“ voru læknisfræðilegar tilraunir í anda Joseph Mengele, ef ekki verri. Þetta voru tilraunir á manneskjum í Mansjúríu, á konum og börnum, mönnum á öllum aldri. Þeim var einfaldlega smalað inn á deildina til að verða tilraunadýr með efnavopn og sjúkdómahernað sem gerðar voru undir stjórn læknis að nafni Shiro Ishii. Hann var viðurkenndur sérfræðingur i gereyðingarvopnum. Þeir notuðu ekki gas eins og nasistar heldur eiturefni og veirur af öllum gerðum, með sprautum og eitruðum mat, efnavopnum í gasformi, uppskurðum á lifandi fólki án deyfinga, limlestingum, aftökum með eldvörpum, skipulögðum og þvinguðum nauðgunum fanga á öðrum föngum til athugunar á því hvort eiturefni og sjúkdómar gerðu fólk ófrjótt eða ekki, sleppingum á sýktum rottum í vistarverum fanganna, þar fóru fram aflimanir þar sem hendur voru teknar af og fætur saumaðir á í staðinn. Hinn ósegjanlegasti hryllingur tók við í búðunum, sem tóku um þúsund manns í einu og mörg hundruð þúsund manns dóu í búðunum og næsta nágrenni þeirra hinum hryllilegasta og kvalafyllsta dauðdaga.

Hvað gerðu Bandaríkjamenn síðan að stríði loknu? Voru haldin réttarhöld? Jú, reyndar, sumir undirmanna Shiro Ishii fengu fangelsisdóm. Var Shiro Ishii leiddur fyrir dómstóla og tekinn af lífi? Nei. Honum var veitt friðhelgi gegn hvers kyns saksóknum. Ástæðan? Bandaríkjamenn álitu að ýmislegt mætti læra af tilraunum Shiro Ishii með efnavopn í framtíðinni.

Shiro Ishii lifði vel og lengi eftir stríð og dó vel við aldur.