Kundera

Um leið og húmor er ekki lengur tilhlýðilegur, þá eru bókmenntirnar búnar að vera. Eitthvað á þessa leið orðaði Milan Kundera það, en hann er látinn, 94 ára að aldri.

Þó má ekki síður læra af honum gildi alvörunnar, gildi hugleiðinga, að leyfa sér að hugsa í skáldsögum og nota til þess þær aðferðir sem hún hefur upp á að bjóða. Gárungarnir bjuggu til sögnina „að kúndera“ til þess að lýsa hugleiðingum og vangaveltum í skáldskap, sem hafa væntanlega ekki átt upp á pallborðið hjá þeim. En fólk gerir þetta samt og stundum fyrir áhrif frá honum og skeytir því engu þótt það sé kallað „gáfað“, sem er versta hnjóðsyrði sem hægt er að klína á nokkra manneskju, nema ef vera skyldi hugtakið „snillingur“, sem Kundera hnjóðaði svo sem í sjálfur en áður en það varð að klisju.

Að fara eigin leiðir, leyfa sér að sigla gegn straumnum, að hafa húmor en vera samt alvara. Húmor og alvara eru enda samheiti, grín er dauðans alvara. Og að vefengja allt sem er álitið heilagt, jafnvel það sem er manni sjálfum heilagt. Í einni bóka sinna tekur Kundera fyrir móðurhlutverkið. Að vefengja sjálft móðureðlið? Er það nokkur hemja? Það má prófa allt. Þó er sú persóna sem verst fer út úr þeirri bók hið lýríska skáld. Og þar eru söguhetju ekki gefin nein grið þótt galdurinn sé sá að lokka lesandann til að hafa samt samúð með honum og pólitískri tækifærismennsku hans.

Kundera var ferskur andblær, gustur inn í um margt staðnað bókmenntalegt andrúmsloft, fjörugur og andríkur, hugsandi og ærslafullur, stílisti með samlíðan, persónuskapandi sem ljáði persónum sínum einstaklega snurðulaus tengsl við stærra samhengi, við veraldarsöguna sjálfa. Að sjálfsögðu fór ég sjálfur rakleiðis í uppreisn gegn honum fyrst þegar hann sló í gegn, af einskærri þrjósku minni (aldrei að trúa hæpinu), en það var fljótt að rjátlast af mér og ég las allar bækur hans upp til agna. Sú sem getur um að ofan, „Lífið er annarsstaðar“, varð mér ansi hugleikin þótt þar fari kannski grimmasta skáldsaga höfundar sem að svo miklu leyti er hlýr og nærgætinn og þykir vænt um persónur sínar. Ég er ekki frá því að Friðrik Rafnsson eigi skilið meira lof en hann hefur fengið, það er ansi sjaldgæft að þýðendur haldi slíka tryggð við höfunda. Hann hefur gert vel.

Kundera er farinn í ódauðleikann, kannski þann sama og hann skrifaði sjálfur svo skemmtilega og írónískt um.