Lífsregla

Það er ein lífsregla sem öðrum fremur er þess virði að læra. Hversu margar bækur sem þú lest er óvíst að þú finnir hana. Sjálfur var ég svo heppinn að stelpa sem ég þekkti sagði mér hana þegar ég var 21 árs. Eins og fara gerir um reglur gleymist hún og rifjast upp á ný eftir því sem tilveran veltist og snýst. Ef þér tekst að læra hana allt niður í hjartarætur verður þú vitrasta og hamingjusamasta manneskjan í heimi. Reglan á það sameiginlegt með öðrum lífsreglum að hljóma eins og hún sé banöl. Það er ekki heldur hægt að færa hana almennilega í orð. Reglan er svona:

Það sem fer í taugarnar á fólki í fari annars fólks er í raun það sem það þolir ekki við sjálft sig.

Til þess að sjá þetta þarf maður að „halda sé saman og hlusta viturlega“, eins og ágætur höfundur orðaði það í nýlegri íslenskri bók. Sá sem fjarviðrast yfir að þessi eða hinn sé montinn þolir ekki montið í eigin fari. Hann sér það hjá öðrum en ekki sér. Sá eða sú sem segir í baknagi sínu að einhver sé fullur af öfund, hroka, ofmetnaði, nöldri of mikið, sé heimsk/ur, falskur/fölsk, illa haldin/n af flærð og fláræði, grunar annað fólk sífellt um reiði, ætlar náunganum framapot — hvað sem fólk segir um annað fólk er einmitt nákvæmlega það sem það á erfitt með að afbera í eigin fari. Ef fólk sakar annað fólk um verknað, atferli eða gjörð eru talsverðar líkur á að sá hinn sami hafi einmitt framið þann verknað, burtséð frá því hvort athugunin er rétt eða ekki. Sá sem bregður öðrum um þjófnað er líklega þjófur sjálfur.

Hvernig gerir það mann hamingjusaman og vitran að vita þetta? Jú, maður hlustar líka vel á sjálfan sig og öðlast sjálfsþekkingu. Maður lætur baktal og róg eiga sig því enginn er fullkominn hvort sem er og það sem sleppur fram á varir manns gæti átt best við um mann sjálfan.

Maður horfist í augu við eigið skuggasjálf, eins og Jung kallaði það, og hefur það í fylgd með sér hvert sem maður fer.

Annað merkilegra er ekki hægt að læra.