Með hægð

Í hverfinu er ríkjandi ástand sól. Með hægð en af öryggi brjótast laufin út úr trjágreinum sem einhver hefur læst þau inni í refsingarskyni fyrir afbrot fyrri laufa. Grasið er hálfslegið og bíður eftir að ég kaupi sláttuvél eftir að það réði niðurlögum orfsins sem Helgi kurteisi gaf mér með því að vera kafgresi. Enginn gengur eftir götunum og við sjálft liggur að maður sakni túristanna þar sem þeir ráfuðu um eins og ráðvilltar sauðkindur niðri í Þingholtum. Blómin eru hvít eins og kalk. Mér er fremur í nöp við hvít blóm. Liljur vallarins erum við sjálf en innan dyra er appelsínugul stofan með sínum reglulegu bókaflóðum þar sem hillurnar sem við smíðuðum saman feðgar til að hafa fyrir ofan gluggana gefa sig ein af annarri, eins og þau séu lauf og það sé komið haust, af þeirri einföldu ástæðu að yfirsmiðurinn treysti ekki nýju, gráu töppunum með kvistunum sem þeir hafa sett á markað þar sem vaninn er sá að það sem kemur nýtt á markað endist skemur en það sem fyrir er til að gróðinn aukist, en það var víst ekki tilfellið, það borgaði sig ekki að nota gömlu átthyrndu plasttappana hans pabba því plast endist illa og hættir að þenjast út eins og það þarf að gera svo þeir veiti skrúfunum tilgang sinn. Mín var sökin. Hugsunin var sennilega: Eigðu bara sjálfur þinn helvítis tjakk! eða eitthvað í nágrenni við það.

Garðurinn er aflokaður. Ég hef ekki komið mér í að raða laufunum aftur á innanhússtrén. Þeir Kobbi og Frikki eru nágrannar mínir og ég hitti þá á hverfisbarnum á dögunum en þangað hef ég farið svolítið til þess að skrifa. Afgreiðslukonan er portúgölsk. Hún er bara ekki frá réttum hluta Portúgals, hún er frá Lissabon. Þar er haldið uppi þeirri jónasveinalygi að það botni einhver í tungumálinu sem þar er talað og það sé í raun og veru tungumál en ekki bullmál sem var fundið upp fyrir skemmtilega teiknimynd sem er komin til ára sinna.

Haustið bíður eins og úlfhundur með fjárhagsáhyggjur að vígtönnum. Sjálfsagt mun það koma steðjandi að mér og öskra einhverja dómadags vitleysu en mér finnst haustið fallegur árstími og mun ekki taka neitt mark á orðum þess, sem verða hvort sem er sennilega á portúgölsku. Fyrir ofan Ártúnsbrekkuna bíða víðernin og allt frelsið sem flúði bæinn eftir að ráðagerðir um þéttingu byggðar gengu of langt. Einhvers staðar er lítill bær sem ég gæti heimsótt. Kannski er hann ekki ósvipaður hverfinu, höfuðborgir eru hvergi til nema í höfði manns sjálfs og maður ræður því fullkomlega sjálfur hvort þær reynast kæfandi eða ekki. En léttirinn þegar maður rennir út úr bænum, á honum verður ekki villst. Allir íbúar þessarar borgar eru nýfluttir hingað úr sveitinni, það er bara spurning um hversu langt aftur í kynslóðir það liggur. Áttavilltir ráfa rammíslenskir sveitamenn um framandi umhverfi sem þrátt fyrir gróðursæld sína er eftirlíking af alvöru borg sem á byggingar frá sextándu öld, hallir og kastala frá því korter fyrir miðaldir. Rétt eins og einhver hafi stofnað fangelsi og smalað öllum íbúunum í fjarlægustu kimum landsins í svolitlar útrýmingarbúðir þar sem engum er svo sem útrýmt en allir eru haldnir sektarkennd yfir að hafa skilið sauðkindina aleina eftir og yfirgefið hundinn og látið heyið bara liggja á túnunum. Hundurinn geltir. Hann er að hugsa eitthvað um lýðræði. Úti gellur í börnum sem í gær eða fyrradag og líka daginn þar áður tóku upp á furðulegum hrekk, þau hrópuðu, líklega á ömmu sína, glaðlega, kersknislega: Amma! Amma! Afi er dáinn! Margoft yfir allan daginn. Voru þau að uppgötva dauðann og missa afa sinn eða bara leika einhvern skrýtinn hrekk? Ég mun líklega aldrei komast að því.

Grasið grær eins og það sé á launum við það og vinni á akkorði við að fóðra kindur sem engar eru. En þær síðustu innan borgarmarka voru einmitt hér við Hrísateig. Ég man eftir þeim í gamla húsinu sem nú er búið að rífa. Það var með trjátegundum í garðinum, auk sauðkindanna, sem hvergi voru til á landinu nema þar og við tókum afleggjara meðan húsið stóð autt. Ég man líka Stefni bónda. Það var sómamaður, bjó í Laugardalnum fyrir ofan Húsdýragarðinn. Dýragarðinn þar sem ég kenndi kalkúnunum að reykja. Mér skilst að þetta tíðkist enn meðal íslenskra kalkúna. Ekki var það nú alveg fallega gert hjá mér. Ég hef iðrast og gert yfirbót. Ég kenndi geitunum að hlæja. Það var um svipað leyti og ég skrifaði biblíuna. Í henni er heimsendalíking sem gengur út á að fólk tekur að borða bækur. Lamb með níu augu og átta horn skýtur öllum skelk í bringu. Á hvaða eiturlyfjum var sá sem þessar sýnir fékk? Eða var það ekkert nema ímyndunaraflið? Magnað hverju það fær áorkað í heimi sem þrátt fyrir allt gott er ekki alveg eins og best verður á kosið.

Hvað liðu aftur mörg ár þangað til Hamsun skrifaði Grónar götur?