Meðmæli, með alls ótengdum óðamála og margmálum aðdraganda þar sem flest fer á milli mála og veröldin er stygg og mælandinn galgopalega hnugginn

Ég var að skipta um skrifstofu og tek mig sérlega forstjóralega út á bakvið skrifborð sem bugðast tignarlega með síðunni þar sem ég tróni á bakvið tvo stóra skjái í hátign minni og ég er með smákoll fyrir framan skrifborðið fyrir fólk sem ég tek á móti svo það sitji lægra en ég og svo hef ég hengt Kjarvalinn og hin málverkin á veggina og get nú opnað allskyns hliðarstarfsemi, svo sem útlánastarfsemi, bílalán, líftryggingasölu, sálfræðitíma.

Himnarnir yggla brún utan við gluggann þótt þeir láti sem þar uppi skíni dýrðin ein og þeir færa hitastigið upp og niður fyrir frostmark í einskærum leik og þeir senda litadýrð niður í skýin, mála mánann heiðgulan og hvítan á víxl, sprengfylla hann og taka svo til við að minnka hann að nýju og bæta við, eins og bitið hafi verið neðan af honum, svolitlum deildarmyrkva. Almennt veita fáir þessu athygli, í hvaða deild sem þeir keppa eða hafa gefist upp á að keppa.

Handan við voginn er kirkjugarðurinn þar sem hinir dauðu blómstra og einhvers staðar á milli trjánna má sjá glitta í ættarsetur, gamlan sumarbústað, úr minni eigin ætt, en hann er girtur af frá hinum dauðu sem bæra ekki á sér heldur sofa eins og réttlætið og vonleysið svífur í kaldranalegu mistri yfir spegilsléttu hafinu og skiljanlegt að þeir vilji ekki hafa orð á því, hinir dauðu, að tilveran ofanjarðar sé ekki mikið til að hrópa húrra fyrir. Svo margir hafa horn í síðu minni að mér er stundum sem ég finni fyrir oddmjúku síðusári eins og fara gerir um fólk með drög að Messíasarkomplex, eða einn slíkan svona líka fullgerðan, má bjóða þér líftryggingu eða elskarðu ekki börnin þín sérlega mikið? Viltu lán, aðeins 46% vextir? Viltu bílalán eða má bjóða þér að leggjast í sófann og segja mér frá æsku þinni sem orsakavaldi og strípuðum áhrifavaldi eða á ég að prófarkalesa í þér augun og finna fimm villur?

Fjöllin leggjast flöt fyrir hverju gylliboðinu á fætur öðru og plágurnar eru ekki sjö og ekki sex heldur önnur kynferðismök en samræði og í stað þess að játa sig sigruð og leggja upp laupana með loðnar tær og loðna lófa finna fjöll og menn upp á enn einu hlálega illvirkinu eða vel dulbúnu góðverkinu eða bara bylta sér líkt og í svefnvöku til að sigra heiminn sem fyrir sína parta neitar líka að játa sig sigraðan, enda nóg um fólk sem sigrar heiminn og meira en nóg um heima sem sigra fólk með öllu, gersigra það, algert rúst.

Skáldabekkur er fullsetinn. Einkunnagjöfin fer eftir því hvort nemendur eru leiðinlegir eða ekki. Sjöunda víddin er sú sem gerir mann hvað mest ringlaðan og að grunni til lætur maður nægja þær víddir sem hafa sannast með vísindunum. Fólk er langoftast hið vænsta fólk þegar maður hittir það í eigin persónu og skiptist á við það orðum og allajafna og að breyttu breytanda stendur það, fólkið, ekki í neinum beinum tengslum við þá fordóma og ranghugmyndir sem kunna að bærast í kolli þess og leita fram á varirnar við sumar kringumstæður og niður á lyklaborð í öðrum.

Maður velur vinsemdina að samskiptamáta og gáskann að tjáningu meðan hugurinn stritar við að slíta viðjarnar sem hann er þrælbundinn, líkt og aðrir hugar, misfast, misharkalega, misjöfn er fyrirhöfnin við að tækla böndin og losa um hnútana, hvað þá losa um landfestarnar sem vefjast um strágulann pollann eins og kyrkislöngur sem hafa sloppið inn á geðveikrahæli og leika þar lausum hala og eru ekkert nema halinn einn, hali með augu og munn, sem heldur að hann geti kyrkt fólk sem er stöndugir stólpar og sumir úr salti og aðrir úr eggjaskurn.

Það var hann Mússólíní og það var hann Netanjahú og það var hann Pútín og þeir spáðu ekki mikið í spörðin sem þeir hugsuðu sem mannslíf, eða öfugt, og svo flæktist fólk innan girðinga með göddum á, alblóðugt og kvalið eftir nýjustu hugmyndafræðilegu flugeldana, eða gekk um með mannbrodda ef það var svo heppið að fæðast í öðrum heimshlutum, öðrum plánetum jafnvel, æfingasvæði geimfara, og þurfti aðeins að fóðra féð, moka flórinn, lifa af náttúruhamfarirnar, hasta á hundinn og segja nábúunum til syndanna og láta orð prestsins eins og vind um eyrun þjóta eða hengja sig í rjáfrinu og borða skyr úr plastdollum og flokka þær svo vandlega niður í feigð annars vegar og feigð hins vegar og reyna að átta sig á muninum.

Blessaðir svanirnir fljóta á tjörninni, 80% ofan yfirborðs, meðan þeir ekki frjósa. Þeir eru víst orðnir leiðir á lífsháska sem hugtaki og þykir meira um vert að reigja hálsinn sem hæst. Þeir ugga ekki að sér, vesalings dýrin, hafa enda ekkert að sanna nema að til var ást og hún var raunveruleg, ást. Enginn heyrir til þeirra hljóðlausa kvaks nema hún Leda sem engu trúir lengur, enda reynslunni ríkari og veit vel hvað varast kann, þótt svanir séu margir og misjafnir, sumir jafnvel svartir, ég hef séð svartan svan og átti einn sinn slíkan að vin en það var í öðru landi og á öðrum tíma og á öðru tilverustigi í öðrum lit.

Reyndar dreymdi mig vel. Martraðir hafa látið á sér kræla en í nótt dreymdi mig vonardraum. Mér láðist að skrá hann niður en ég man tilfinninguna. Og það er fleira til huggunar hnuggnum. Ég mæli með stórgóðri plötu Guðmundar Andra, þótt ég komi reyndar sjálfur þar við sögu á nokkur hljóðfæri, en það er eitthvað huggunarríkt við þessi lög og þessa texta. Blíðlegur og berfættur, kærulaus og kátur, angurvær og andríkur, blíðlegur og berfættur: Full og hundrað prósent meðmæli. Það var ánægja og heiður að vera með.

https://open.spotify.com/embed/album/3bvITYlq2vb5ekGgeyGvFm?utm_source=generator&theme=0