Mergðin

Kannski er ekkert orð til á íslensku yfir fyrirbærið sem er ekki neikvætt. Alla vega koma nokkur í hugann sem ekki eru hlutlaus: Skríll, múgur, hópsál, lýður (sem þó er helmingur orðsins lýðræði), pakk … Fjöldi er þó tiltölulega hlutlaust og hópur líka. Eða mergð. Hópsál kemst kannski næst því sem ég er að hugsa um. Þó er það orð sem skýtur umsvifalaust á loft allskonar flugeldum hugrenningatengsla og vísar ekki beinlínis til fyrirbæris sem getur haft bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar og hægt er að velta vöngum yfir með það fyrir augum að greina fordómalaust.

„Við erum fólkið“, sögðu allir lýðskrumarar alltaf, þegar þeir sögðu ekki „við erum þjóðin“. Ég er víst ekki fólkið en þó fer ekki hjá því að ein manneskja geti umbreyst í fólkið — eða í margmenni í stað einstaklings? — í hugsun sinni, hegðun og atferli. Reyndar er þá óvíst að ég sé ekki stundum fólkið.

Þegar maður situr einn með bók í hönd og les fæst maður við það andfélagslegasta sem hægt er að gera í samtímanum. Skemmtilegast er ef maður hefur valið bókina algerlega af handahófi og veit ekkert um hana, farið eftir titli og kannski kápu, þessu tiltölulega nýja fyrirbæri í sögu bókarinnar því áður voru allar bækur jafnar og kápulausar. Besta næðið til að lesa slíka bók er í flugvél. Það er slökkt á internetinu. Maður hefur lokið við ferðasögu en heldur henni fyrir sjálfan sig. Maður passar sig að lesa ekki textann aftan á bókinni til að vita sem minnst um hana.

Hún kom mér á óvart. Skýrleiki í hugsun og framsetningu en þó óvanaleg sem greining á samtímanum. Á því hvernig lýðræði getur virkað eða ekki virkað. Höfundurinn er maður að nafni Gustave le Bon sem ég vænti þess að sé bróðir eða frændi söngvarans í Duran Duran (af hverju er orðið tvítekið? Eða öllu heldur: Af hverju hétu Bítlarnir ekki The Beatles The Beatles?). Ég geri mér að leik að velta fyrir mér hvaða stjórnmálaskoðanir höfundurinn aðhyllist og hvort ég geti afgreitt hann með einfaldri stimplun. Reyndar rek ég fljótlega augun í viðhorf sem er svo úrelt en þó haldið fram eins og svo sjálfsagðri staðreynd að ég hvorki veit fyrir hvern maðurinn skrifar né úr hvaða átt. Hann er djarfur og óvæginn en snýr svo eigin hugsun á hvolf í næstu setningu, þegar maður heldur að þar skrifi klassískur íhaldsmaður fullyrðir hann að „mergðin“ (sem sé enska orðið „crowd“) sé alltaf og hafi alltaf verið íhaldssöm. Hann tiltekur ótal dæmi úr sögunni og ég ætla að stilla mig um að gúggla höfundinn, mig vantar nokkrar blaðsíður upp á að klára bókina, og segir á einum stað að það sé engan veginn hægt að vita nokkurn hlut um orrustuna við Waterloo og þar með fánýtt að fást við sagnfræði: Jafnvel þótt mörg hundruð vitni hafi verið að einstökum atburðum hennar er henni ekki fyrr lokið en tekið er til við að smíða goðsögnina um hana. Það verður til goðsögn, henni er hrundið af stalli og önnur tekur við — en að vita hvað er satt, það er ekki hægt. Hann bindur vonir sínar við skáldskap sem sé það eina sem geti sagt sannleikann, og þá í leiðinni sannleikann um goðsagnirnar, frásagnirnar sem verða til eftir því hver vinnur og þar fram eftir götunum. Vitnin hundrað að sögulegum viðburði kæmu aldrei til með að muna nema ólíkar og sundurleitar útfærslur af brotakenndum senum, ef þau eru þá ekki dauð fyrir löngu.

Það rennur upp fyrir mér nokkru eftir að ég hef hnotið um kolólöglegt og rammúrelt viðhorf í þriðja sinn að ég ætti að láta eftir mér að athuga ártalið fremst. Kemst þá að raun um að ég er að lesa meira en hundrað ára bók um fyrirbærið mergð eftir Gustave le Bon. Ég er hreint ekki að lesa neina tilraun til greiningar á samtímanum heldur á eilífu fyrirbæri. Fyrirbæri sem lætur alla hugsa eins og gerir fólk að auðveldri bráð fyrir leiðtoga, hetjur og píslarvotta, fyrirbæri sem laðar fram það versta í manneskjunni og lamar sjálfstæða krítíska hugsun en er þó einmitt grunnurinnn að því besta sem gert hefur verið í mannkynssögunni. Fyrirbæri sem gerir fólk fært um fólskuverk og hetjudáðir. Fyrirbæri sem getur bæði leitt til framfara og glötunar.

1898 er þá einmitt árið í ár. Og sömuleiðis öll hin árin og allar aldirnar. Mig grunar að það hafi mátt misnota texta Le Bon ansi harkalega því þótt ætlunin sé ekki sú að lýsa grundvellinum og aðferðinni til að ná tökum á hópi sem tekur ekki rökum, skilur heiminn aðeins í myndum, er fyrirmunað að sjá fyrir hvað sé útilokað að gerist, hópi fólks sem reiðist auðveldlega og kemst í uppnám, gleðst að sama skapi og er hrifnæmt og myndar þannig góðan jarðveg fyrir suggestio, sér ekki tvær hliðar á hverju máli, hvað þá fleiri, er trúgjarnt og dómhart, þolir engin andmæli og skilur þau ekki, hópi í leit að heildstæðri heimsmynd og með grunn að slíkum, hópi sem líkist þeim sem urðu til í frönsku byltingunni og fyrr og síðar — þótt bókin sé krítísk á allt má alveg eins lesa hana sem leiðarvísi fyrir verðandi leiðtoga til að ná tökum á hópsálinni og leiða hana hvert sem honum sýnist og alltaf út á ofstækisfullar slóðir.

Sem sé alveg eins og gengur og gerist daginn í dag á því herrans ári sem nú er, árið 1889.