Mersol

„Það skiptir engu hvað þú gerir og engu hvað þú segir,

Alltaf má finna leið til að færa það til verri vegar.

Og jafnvel þótt þú takir þig nú til og skelliþegir

má tæta það niður — þagnir geta verið uggvænlegar.“

Ég endurlas Útlendinginn eftir Albert Camus. Fyrst þegar ég las hana — hún hrifsaði mig fyrir fullt og allt — hef ég verið fjórtán ára og ég veitti því ekki athygli að nafn höfuðpersónunnar, Mersol, er samsett úr frönsku orði sem merkir haf, auk þess sem það getur merkt móður, og hins vegar úr orðinu yfir sól, en sólin er aðeins ein og svipað orð er viðhaft um einsemd.

Bjarni frá Hofteigi hefur gert vel í að upprita nafnið á íslensku þannig að það drægi fram þessi hugrenningartengsl. Verkið er réttardrama. Allt í einu rennur upp fyrir manni að gildin sem maður lifir eftir eru í augum alls samfélagsins fullkomin forsmán, hneykslanleg, fyrirlitleg, glæpsamleg. Mersol er dreginn fyrir rétt sakaður um morð. En þó er morðið ekki höfuðatriði í réttarhöldunum og í augum samfélagsins heldur hitt að hann grætur ekki við líkvöku móður sinnar og sýnir engin merki um tilfinningar við útförina. Það er réttað yfir tilfinningaleysinu, eða réttara sagt birtingarmynd tilfinninga sem eru skyldubundin í augum samfélagsins. Það má drepa araba, einkum í sjálfsvörn, en það má ekki vera jafn dulur og Mersol og allra síst mátti hann taka saman við konu í kringum dauða móður sinnar og ætla sér að giftast henni þótt hann játi fyrir henni blátt áfram og sannleikanum samkvæmt að hann elski hana ekki.

Það sem olli morðinu í hans augum var glampi og haf. Það glampar á hnífinn sem arabinn dregur upp gegn honum, hann hefur ekki rán í huga og það er heldur ekki beinlínis persónulegt því hann á sökótt við vin hans sem Mersol hefur komið til aðstoðar, og glampinn kemur frá hafinu sem tindrar af sólskini.

Sól, haf, glampi af hníf — það má vera augnabliks blinda en það má líka vera teikn um að enda þótt sérhver manneskja sé ein og taki ábyrgð á eigin lífi og eigin gjörðum séu manneskjurnar tvær þegar tekist er á upp á líf og dauða. Það er ekki höfuðatriði að hinn myrti sé arabi (mun betra orð en múslimi, ógildishlaðið og fordómalaust) en samt skiptir það máli því sem blanda af Frakka og Alsírbúa var Camus klofinn í tvennt, eða í það minnsta blendinn, fordæmdi heimsvaldastefnu Frakka sem þá réðu ríkjum í Alsír, fordæmdi óhæfuverk þeirra en fordæmdi líka óhæfuverk Alsirbúa þótt hann væri ögn seinni til. Hann var landlaus eða tveggjaþjóða og munaðarlaus.

Það sem skiptir höfuðmáli og er algerlega bannað í því samfélagi sem tekur við í Frakklandi eftir nasismann (Camus tók líka þátt í andspyrnunni gegn honum) er það lífsviðhorf sem á yfirborðinu líkist því að standa á sama um allt, gráta ekki móður sína, vera svo ósmekklegur að taka saman við manneskju að dauðanum nýafstaðnum, vera … æðrulaus?

Hnífsblað og glampi af sól, heimsmynd.