Much ado About Nothing með hljómsveitinni Waxahatchee kemst á lista tímaritsins Pitcfork yfir 100 bestu lög ársins 2024. Waxahatchee er ekki beinlínis hljómsveit heldur farvegur fyrir góðan og einstaklega hæfileikaríkan lagahöfund, Kathryn Crutchfield. Ég deili ekki skoðuninni, hún getur gert miklu betur og hefur gert það í fortíðinni. Það er heldur eins og hún sé að missa það, sem gerist jú.
Ya Ya með Beyoncé lendir öllu ofar á listanum. Frekar ofarlega. Lagið er pastís af gömlu efni, endurvinnsla, sem getur verið það frjóasta af öllu. Ég deili ekki skoðuninni heldur hérna. Það er ansi langt í það besta frá Beyoncé, miðað við til dæmis „Hold up“ — í fylgd með vídeóinu með laginu af þeirri óvæntu plötu, vídeói sem byrjar á ljóði og er eiginlega ljóðabálkur, er það fádæma flott verk — og þarf ekki langt að leita á sömu plötu fyrir betra lag en Ya ya, sem hún vinnur í samstarfi með Dolly Parton og er þrusufínt. Það er svo sem ekki nýtt að einföldustu lög listamanna nái í gegn til almúgans.
Alone með The Cure er í einu af efstu sætunum. Er það einhver gamalmennagæska? Því fer fjarri að Robert Smith nái að viðhalda eigin rómuðu óhamingju í laginu. Það á ekki að veita gamalmennum afslátt fremur en neinum öðrum. Gamalmenni geta gert sitt allra besta á sínum efri árum, en kannski á það betur við um rithöfunda og djasstónlistarmenn en dægurtónlistarmenn. Ég gef ekkert fyrir vorkunnaratkvæði.
Og lýkur þar með þeirri fremur vægðarlausu ör-yfirferð.