Minningargreinar um lifandi fólk

Mánuðum saman hef ég fylgst með fasteignamarkaði eins og úlfhundur. En tvístígandi úlfhundur sem aldrei getur tekið ákvörðun um hvort skuli hrökkva eða stökkva. Ég hef lesið fleiri sölulýsingar en skáldverk. Ég hef skoðað ótal myndir af ótal herbergjum sem stundum er illmögulegt að átta sig á hvaða afstöðu hafa gagnvart hvert öðru. Maður gengur út um svefnherbergisdyrnar og er kominn upp í ris, þaðan er innangengt í eldhúsið á hæðinni fyrir neðan og svo opnast svalir út frá klósettinu. Stundum fer ég að skoða. Í huganum flyt ég inn og af því að línuleg framvinda tímans er ímyndun bý ég í þessum íbúðum í mörg ár, ýmislegt drífur á dagana, ég held matarboð og menningarleg salon, eins og ég geri líka hér heima, þar til ég hrekk upp við þá skynvillu að morgni að ég hafi aldrei búið þarna og sé enn hér á Bjargarstíg.

Einu sinni í íslenskri réttarsögu hefur það gerst að maður nokkur var dæmdur vera leyndur galli á fasteign og kaupin gengu því til baka. Ég get ekki dæmst vera leyndur galli á fasteign nágranna því ég kem til eftir að þeir hafa flutt inn og seljandi gat ekki séð fram í tímann, þótt hann sé ólínulegur. En grannar mínir gætu verið leyndir gallar á fasteign, ég gæti búið innan um fólk sem hvert um sig er leyndir gallar á einni fasteign, minni eigin fasteign, og þeir gætu verið mjög leyndir, falið sig á bakvið ruslatunnu, sagt mér að éta skít í stað þess að bjóða góðan daginn. Þó held ég að ekki nægi að vera almennt leiðinlegur til að vera leyndur galli á fasteign. Það dugir ekki að vera í sífellu að fara með ljóð eftir Einar Ben, ryðja látlaust út úr sér innihaldslausu orðagjálfri, hafa smekk fyrir Vivaldi, bora í nefið, hrækja, svara aldrei þegar á mann er yrt eða vera á þeirri skoðun að jörðin sé flöt.

Ég held jafnvel að maður þurfi að berja einhvern í klessu til þess að verða manneskja númer tvö á þessum réttarfarssögulega lista.

Þegar hingað er aftur komið blasir við sá leyndi galli á fasteign minni sem kom ekki fram fyrr en í ágúst þegar þeir reistu stillansa með spónaplötum á hliðunum og skelltu þannig yfir mig snemmbúnu skammdegi. Mér verður ekkert úr verki í myrkrinu eftir að byrgt var fyrir glugga mína — annað var síðan ekki gert þangað til í gær — og ég sit í klastrófóbískri refsingu fyrir ekki neitt sem líkast til er stunduð í einhverju landi sem ég hef aldrei heyrt getið um og skoða fasteignaauglýsingar. Ég þarf að stækka við mig.

Allar þessar vistarverur — og það jaðrar við hnýsni að skoða myndir af þeim, hvað þá mæta á staðinn með möguleikann að vopni — eru uppstillingar og oftast hefur flest persónulegt verið fjarlægt en samt eimir eftir af áru mannveranna sjálfra sem þar búa stundum enn. Stundum taka þær sjálfar á móti manni. Ég átti í hrókasamræðum við hjón í húsi við Drafnarstíg, leynihúsi við leynigötu, og bílskúrinn hafði aldrei verið notaður sem bílskúr heldur var hann fjárhús og bóndinn spilaði á trommur og ég spila líka á trommur og hann ólst upp í húsinu en brá sér svo af bæ og kom ekki aftur fyrr en eftir 27 ár. Mér þótti of mikið þurfa að gera fyrir handlaginn mann, ekki trommuleikara. Þegar fólkið er fjarverandi er þetta eins og að lesa minningargreinar um lifandi fólk. Hví skyldi þessi dæld vera á hurðarkarminum? Jú, svarar enginn, það var þegar hann Siggi litli var lítill að … Kannski væri best að flytja í hús með enga sögu. Þó hef ég grafist mjög fyrir um sögu þess húss sem ég bý í og er með elstu húsum bæjarins. Nýliðin saga er öðruvísi en eldgömul saga og ekki eins áhugaverð.

Það stendur á framkvæmdunum. Ég vil helst að þær séu að baki áður en ég stekk. Í augnablikinu bý ég í húsi lengst vestur í bæ meðan gervitími líður hér í myrkrinu. Ég þarf líka að dytta að ýmsu og hef á mínum snærum menn til þess arna, fyrir utan mennina sem húsfélagið allt er með í vinnu sem svo lítið hefur orðið af. Það er gaman að nota vélsög til þess að lagfæra fúsk sem fyrri eigandi, sem var iðnaðarmaður eða sonur eins slíks, skildi eftir sig, en eins og allir vita er alltaf allt í ólagi heima hjá iðnaðarmönnum. Þær talsverðu uppgerðir sem íbúðin hefur farið í gegnum á ég að þakka leikara sem ég hef reyndar hitt fyrir ekki svo löngu og rætt íbúðina í þaula, hann greinilega býr hér enn í hliðarvídd og þekkir hvern krók og kima.

Oft er íbúðin í fasteignaauglýsingunni seld á meðan ég bý þar í huganum. Þó er svo mikið frost á fasteignamarkaði að það getur tekið fjóra til fimm mánuði að selja. Stundum selst strax, stundum er löng bið. Í millitíðinni er ekki annað að gera en að lesa minningargreinar um lifandi fólk, vonast til að framkvæmdum verði hraðað eða ígrunda með sér að stökkva með nokkurri óvissu.