Nokkur æði vafasöm heilræði um lífið

  1. Heillavænlegt er að finna einhvern sem er ábyrgur fyrir öllu sem úrskeiðis hefur farið í lífi þínu. Góð eru börnin til blóra og ekki ætti að auka sér byrði að óþörfu. Temdu þér almennt að vera umtalsill(ur).
  2. Forðastu af fremsta megni að vera sjálf(ur) ábyrg(ur) fyrir eigin lífi og ákvörðunum. Slíkt getur valdið mikilli vanlíðan og sektarkennd.
  3. Berðu þig einatt saman við aðra og reyndu að koma því þannig fyrir að samanburðurinn sé þér í óhag. Þannig geturðu sett þér stefnumark. Ígrundaðu stefnumarkið stöðugt og lengi.
  4. Líttu á einstakling sem verður á vegi þínum og er þér andvígur sem hindrun sem þú þurfir að ryðja úr vegi, ekki sem möguleika til sjálfsþroska.
  5. Berðu harm þitt einatt á torg. Með því móti er hugsanlegt, jafnvel óhjákvæmilegt, að einhver verði þess var og líkni þér.
  6. Trúðu öllu sem blæs þér kapp í kinn og eykur þér framavon, jafnvel stjórnlausan metnað, því án slíkrar hvatningar gætu stefnumiðin ratað í ranghala.
  7. Ekki reyna að neinu leyti að laga umhverfið að þér fremur en að laga þig að umhverfinu.
  8. Séu fláráðir einstaklingar í umhverfi þínu skaltu ekki láta þá afskiptalausa heldur reyna eftir megni að skara fram úr þeim í fláræði.
  9. Legðu hverja misgjörð sem þér er gerð í lífinu rækilega á minnið og búðu þig undir að launa lambið gráa, þótt áratugir líði.
  10. Sýknaðu ekki þá sem þú hefur grunaða um græsku fyrirfram í nafni rangsnúinnar skilningsþarfar. Ætlaðu náunganum ætíð það versta.
  11. Vertu jákvæður fremur en neikvæður, en sértu alfarið neikvæður skaltu ekki láta henda þig að trúa á það sem áður var kallað „dómgreind“.
  12. Temdu þér jákvætt sjálfsálit, drýldni og hofmóð. Annað fólk lítur mann þeim augum sem maður lítur sig sjálfur. Hikaðu ekki við það sem áður var kallað „mont“ og jafnvel kallað „dauðasynd“. Slík orð eru úrelt.
  13. Sýndu auðmýkt þegar einhver ætlast til auðmýktar af þér því auðmýkt getur verið góð ímyndarsköpun.
  14. Gerðu aldrei góðverk án þess að ganga úr skugga um að sem flestir verði þess áskynja. Hvaða gagn er þér annars að góðverkinu?
  15. Vertu sívakandi fyrir tækifærum. Jafnvel þótt næmi þitt sé af svo skornum skammti að jaðrar við tornæmi getur hver sem er gripið gæsina þegar hún gefst og heimurinn er fullur af … gæsum … og öðru tornæmu fólki en þér og mér.
  16. Forðastu að hrósa fólki ef það hrósar þér ekki á móti og helst að fyrra bragði.
  17. Ekki brosa of mikið. Almennt koma bros fólki fyrir sem flírulegt glott hinna alvörulausu. Ekki bjóða fólki góðan dag ef auðveldlega verður vikist undan því.
  18. Aldrei viðurkenna mistök undir nokkrum kringumstæðum. Það er veikleikamerki.
  19. Barmaðu þér sem allra mest. Æfðu þig í að vorkenna sjálfum þér svo að aðrir geti vorkennt þér líka.
  20. Verðu tíma þínum vel og af sem best ígrunduðu máli: Skiptu honum jafnt á milli eftirsjár annars vegar og hins vegar ranginda sem einhver hefur beitt þig einhverju sinni, þannig er tímanum best varið.