Hið klassíska form ritdóms er fjórliða: 1) Lýsing 2) greining 3) túlkun 4) mat. Kannski vantar í þessa góðu fjórliðu mikilvægasta liðinn: Liðinn þar sem greinandinn segir frá einhverju sem kemur málinu hreint ekkert við en er samt áhugaverðasti þáttur ritdómsins. En getur svo sem líka verið sá óáhugaverðasti. Síðasti liðurinn, matið, ætti að vera stystur en er oft lengstur og með útleggingum um tilfinningar rýnandans meðan hann las bókina, sem koma málinu enn minna við, minna en bátasmíð Ása í Bæ.
1) Blái pardusinn — hlóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur er með þremur meginpersónum sem eiga það sameiginlegt að vera að hlusta — á ferð — á sömu hljóðbókina, Bláa pardusinn eftir dulnefndan höfund, melódramatíska frásögn um íslenska konu sem lendir í miðju veraldarsögunnar á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Persónurnar þrjár virðast ekki í fyrstu eiga neitt sameiginlegt annað en hlustun á sömu hljóðbókina. Persónurnar hafa ólíka nálgun gagnvart skáldsögunni innan skáldsögunnar. Það virðist stefna í hið hefðbundna form sem segir einfaldlega þrjár útgáfur af sömu sögu út frá ólíkum sjónarhornum en svo reynist ekki vera.
2) Það er vandi að greina skáldsöguna innan skáldsögunnar og ekki með öllu víst hverjum af lesendum hennar þremur — innan verksins — eigi að taka mark á. Er hlóðbókin ómerkilegt melódrama með yfirdrifinni sagnfræðilegri ónákvæmni eða stórkostlegt listaverk sem þarf að verða að kvikmynd? Þar kemur að því sem gerir skáldsögu Sigrúnar ekta: Það er engin leið að gera upp hug sinn, allar raddir innan skáldsögunnar eru jafnréttháar, allar eru þær um leið óbein lýsing á persónunni sem segir frá og það ríkir lýðræði innan verksins. Verkið í verkinu er skopstæling af sjálfu sér og verkið sjálft í heild sinni er líka að nokkru marki einskonar skopstæling á sjálfu sér. Hugmyndir um hlutverk skáldskaparins undir lok bókar eru uppljómandi, en þar er að finna hugleiðingar um skáldskapinn sem slíkan sem sennilega ættu að geta verið víti til varnaðar gagnvart ódýrri frasamennsku um skáldskap sem nóg hefur verið til af fyrr og síðar eins og kunnugt er.
2) (og 2b) Það sem kemur málinu ekki beinlínis við) Nýlega sagðist spænska rithöfundinum Javier Cercas, sem mjög hefur skrifað um söguleg efni, svo frá að hefðbundnar skáldsögur gætu ekki verið góðar. Ef skáldsögur ættu að verða góðar þyrftu þær að vera skrýtnar. Það hefði engan tilgang að skrifa enn eina hefðbundnu sögulegu skáldsöguna. Blái pardusinn — hljóðbók er skrýtin. Þegar kemur að plotti má segja að verkið sé skrýtið með því að vera ekki skrýtið. Allur módernisminn eins og hann lagði sig einkenndist af ákveðinni óbeit á söguþræði og eimir enn eftir af því ífagurbókmenntum. Verkið Blái pardusinn — hljóðbók er ekki feimið við plott. Það er ekki feimið við að snúa öllu á hvolf í plottinu, sem er ekki svo algengt. Af sögusamúð er það að segja að Aristóteles vildi, eins og öllum er kunnugt, að persónur væru af efri stétt svo að hægt væri að líta upp til þeirra en verk Sigrúnar einkennist ekki af þeirri kröfu að auðvelt sé að samsama sig við persónurnar, sem oftar en ekki er enda illa dulbúin krafa um tilfinningaklám. Samt er auðvelt að samsama sig við allar persónurnar. Ef maður er ekki fæddur í gær og getur borið kennsl á að sumar hugmyndir sögupersóna gera góðlátlegt grín að þeim sjálfum, ýmist fyrir æsku sakir og ástríðurugls eða vegna ferkantaðrar sagnfræðilegrar þvermóðsku, hvort tveggja sem hver og einn ætti að geta kannast við í sjálfum sér. Þriðja persónan er dulúðugust, prófessor á eftirlaunum, en ekki lætur fjarri að skensið sé einnig á hennar kostnað, kannski er hún fáránlegust þeirra allra. Óvænt á bókin ýmislegt sameiginlegt með skáldsögunni Staðreyndirnar eftir Hauk Má Helgason, sem ég voga mér að mæla jafnmikið með þótt lestur sé enn í skötulíki hjá honum mér, sem kemur ekki málinu við, en þó. Eitthvað liggur í loftinu um söguna og um sannleikann.
3) (og 3b) Það sem kemur málinu ekki beinlínis við) Annað hvort fá höfundar góðar hugmyndir eða ekki. Hugmyndin að Bláa pardusnum er frábær en það er ekki nóg. Það þarf meira til — og þetta meira er þarna. Textinn er þéttur, þríein fléttan gengur upp, bókin er drepfyndin. Eftir sitja spurningar um sögu og miðlun sögu sem eru grafalvarlegar, enda er vanmetið hvað húmor getur verið mikil dauðans alvara.
4) Sumar bækur eru maurar og aðrar risaeðlur. Þessi bók er maur og fullkomin sem slíkur. Afburðagóð bók sem skilur eftir sig slóða af hugrenningum og kátínu. Bók sem þorir að vera skrýtin. Ein af bestu bókum ársins.