Ofviðrið

Það er kannski tímabært að greina frá því að fyrir þessi jól sendi ég frá mér hljóðljóðabálk.

Hann verður til reiðu og öllum opinn á öllum streymisveitum — nema Storytel.

Bálkurinn á eftir að fara í „möstrun“, þ.e. masteringu, og hluta hans var nýlega bjargað úr tölvuhruni. Enn er unnið að hljóðblöndun (mixi) og útgáfudagur er ekki ákveðinn, en verður þó fyrir jól.

Hljóðljóðabálkur — orðið er mér ekkert heilagt — er tilraun til að lýsa ljóðabálki sem gefinn er út sem hljóðbók og hefur að geyma hluti í ætt við útvarpsleikrit en er þó öllu heldur blanda af upplestri á ljóðabálki, áhrifshljóðum og tónlist.

Bálkurinn kemur ekki út sem bók. Ég var að sækja um ISBN-númer og útgefandi er óljós, enda ku útgefendur úrelt fyrirbæri og varða lítið um slíkt, en þó allra síst Storytel.

Áhugi höfundar (minn) á því hvort lesendur/hlustendur verða tveir, sautján, hundrað, þúsund eða milljón stendur á sléttu núlli, enda kemur gildi bókmennta sölutölum ekkert við.

Jamm. Þannig er nú það. Þetta verður framlag mitt til jólabókaflóðsins. Ég mun flytja bálkinn, eða hluta hans (í breyttri mynd eða tilbrigði), á ljóðakvöldi í Mengi sem ekki er svo langt í og sennilega víðar.

Raunar er ég opinn fyrir beiðnum um upplestur, sem þó verður aldrei eins frá degi til dags. Netfangið mitt er hermannstefansson@yahoo.com. Bálkurinn hefur verið fluttur í tvígang áður og með nokkrum ólátum og angist og harmkvælum og óhljóðum í bæði skiptin og að hluta til sem „playback“.