Ofviðrið (hljóðljóðabók) o.s.frv.

Kannski er það ekki klókt að rithöfundum og listamönnum sé látið eftir að kynna eigin verk á félagsmiðlum. Athæfi sjálfsupphafningar er varla sérlega göfugt og hlýtur að slá marga út af laginu. Getur verið niðurlægjandi. Það er svolítið eins og gamli frasinn „maðurinn á bakvið verkið“ hafi snúist við og nú sé það „maðurinn fyrir framan verkið“. Rithöfundaviðtöl breytast svolítið í mannlífsviðtöl og snúast um eitthvað sem kemur verkinu ekkert við. Verða til þess að verkið sést ekki.

Ég skráði mig rétt sem snöggvast inn á Facebook og það má líka láta þess getið hér að Ofviðrið (hljóðljóðabók) er nú fáanleg á öllum streymisveitum nema Storytel. Engu skiptir hvort leitað er á Spotify, Tidal, Apple Music eða Youtube.

Græði ég á þessu? Örugglega ekki. En það hefur ekki fundist leið sem virkar fjárhagslega fyrir rithöfunda þegar kemur að hljóðbókum. Storytel virkar fyrir suma en flestir eru bara útstillingarvörur til að sýna fram á vöruúrval og væri þá betra að segja sig úr batteríinu og leita annarra leiða. Það hef ég þegar gert. Hinir sem eftir eru fengju þá meira fyrir sinn snúð í stað þess að fjármagnið dreifist í smáslöttum út um allt.

Ekki að ég lái öðrum fyrir að vera duglegir að kynna sig á Facebook. En fær fólk sem fylgist með ekki leið á þessu ef það verður að síbylju? Og ekki að ég krefjist heldur skilyrðislausrar hógværðrar af hálfu listamanna. Sannleikurinn er sá að montið fólk getur verið ferlega skemmtilegt.

Stundum leiðist svo jólabókaflóðið út í eitthvað sem maður vill ekki vita neitt af. Út í hjaðningavíg, skjáskotárásir og ósmekklegheit, deilur sem þegar upp er staðið snúast ekki um neitt, alla vega ekki neitt fagurfræðilegt, ekki um það fagra og ekki um það ljóta, ekki heldur um stjórnmál eða heimsmynd. Það eru egndar gildrur. Blekið er blautt á stimplunum ef maður stígur í gildruna. Ég geri það ekki.

Hvað Shakespeare var eiginlega að fara með Ofviðri sínu er nokkuð á huldu, eins og það á að vera. Sennilega tormeltasta leikrit hans. Hvað ég sjálfur er að fara með ofviðri mínu er: Þetta varð bara til svona og vildi ekki verða öðruvísi. Það eru í þessu þyngsl og melankólía og harmur og mikið af músik. Maður leysir höfuð sitt. Leysir af hverju kemur engum við.

Kannski fór ljóðlistin frá tónlist og yfir að myndlist með nútímaskáldunum og hefur ekki snúið aftur þaðan. Myndlistar get ég notið sem áhorfandi, heldur betur, en skortir hæfileika til að tjá mig með henni. Kannski rambar það inn í texta líka, maður er meira fyrir tónlist í texta en myndlist. Að fordæma þá sem eru meira fyrir myndlist er fjarri mér.

En þetta er alla vega komið hér fram, að til er hljóðbók, hljóðljóðabálkur, sem heitir Ofviðrið. Hann er bæði með ISBN-númer og skráningu hjá Stef. Sumum nægir kannski að hlusta bara á popplagið eftir fimmtu mínútu og finnst það aðgengilegra en hitt, það má mín vegna. Kannski heldur maður áfram á þessum slóðum. Alveg sama þótt markhópurinn sé fámennur. Einn lesenda sagðist aldrei hafa heyrt neitt þessu líkt. Ég veit um fleiri sem eru ánægðir. Það gleður mig. Mér er alveg sama þótt fólki líki ekki. Það er ekki persónuleg skoðun á mér sem manneskju.

Ætli það sé ekki langt þangað til ég gægist aftur á Facebook. Maður verður bara paranojd af því. Og bara það að einhver sé paranojd merkir ekki að einhver annar ætli sér ekki að ná honum, finna hann í fjöru, „hjóla í hann“, negla hann, gera endanlega út af við hann.