Áðan sá ég fortíðina skunda hjá. Núna er hún farin og kemur ekki aftur.
Við leituðum vikum, mánuðum, árum og áratugum saman að Guði, ekki fyrir okkur heldur aðra. Hann faldi sig inni í kústaskáp og þótt hann sé hvarvetna er hann bara inni í kústaskáp þegar hann er inni í kústaskáp. Við andvörpuðum og gáfumst upp. Án þess að leita inni í kústaskáp þar sem hann vafalaust hefur verið.
Það er mjög erfitt að vera leiðinlegur. Sjálfur þjáist ég ekki úr hófi fram vegna þess en það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir fólk í kringum mig hvað ég er leiðinlegur. Það versnar bara. Nema þegar það batnar. Ég hef fjárfest í bíl og þar með gefist upp fyrir loftslagsvánni með því að láta rafmagnsbílinn fara. Ég held að þannig bílar séu húmbúkk þegar upp er staðið og allt talið, svipað og vindmyllur með 30% nýtingarhlutfall. Ég berst gegn vindmyllum, svo leiðinlegur er ég. Ég held að fólk viti almennt ekki að það voru olíufyrirtæki sem fundu upp orðið „kolefnisfótspor“ og fleira slíkt því það skilur ekkert eftir sig fótspor nema manneskja og þar af leiðir að málið er fólkinu að kenna en ekki olíufyrirtækjunum. „Olís græðir landið“, auglýstu þeir á Íslandi, þar sem þeir plöntuðu trjám og við gættum okkur ekki á því að setningin er tvíræð.
Bráðum kemur nýr dagur. Hann mun fela í sér nýja von, nýtt vonleysi, nýja hugsun og ný andlit. Ég verð áfram leiðinlegur. Ég er svo leiðinlegur að það leiðinlegasta sem ég veit er skemmtilegt fólk. Ég hreinlega þoli ekki skemmtilegt fólk. Hver hefur eiginlega sannfært það um að það sé skemmtilegt? Hví auglýsir það hamingju sína eins og hún sé til sölu? Sennilega af einskærri vanlíðan. Það hlýtur að vera skelfilegt að fara á fætur á morgnana og vera svona.