Ögn af verðskulduðu lofi

Eftir því sem ég hef best séð er Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, nokkurn veginn alveg ein um það að hafa vakið athygli á samningum útgáfurisans Storytel og hvað rithöfundar bera (eða bera ekki) úr býtum. Það er langt síðan hún byrjaði. Þá gerðist hún nýverið eini rithöfundurinn sem fylgdi lögum sem banna launaleynd og birti opinberlega launaseðil sinn og sýndi svart á hvítu hvernig tölurnar eru.

Einhver kannski myndi halda að það væru til sérstök samtök fyrir rithöfunda sem sæu um að vekja athygli á slíku en nei, það er Hildur Knútsdóttir. Það er hver rithöfundur einn og út af fyrir sig. Ég held með þeim sem standa einir/einar og þora að segja satt og láta sér í léttu rúmi liggja hvort verði afleiðingar.

Að vísu munu vera einhver samtök sem seint og um síðir sendu nýlega frá sér yfirlýsingu — fáránlega seint. Til hvers? spurði maður sig. Hildur Knútsdóttir er löngu búin að þessu.

Sjálfur hef ég fyrir nokkru náð því að láta fjarlægja bækur mínar af síðu Storytel eftir að hafa tekist á við sænskt lögfræðingateymi. Flestir rithöfundar fá ekki einu sinni það sem Hildur fær heldur eru bara ókeypis gluggaskraut til að sýna fram á úrval og breidd. Þeir sem fá meira en ekkert eða meira en einn kaffibolla á ári hafa ekki döngun til að segja neitt. Auk þess ríkir samningafrelsi á Íslandi og engin leið að vita hver er á sérsamningi við fyrirtækið og hver ekki.

Ofviðrið (hljóðljóðabálkur) er eina íslenska hljóðbókin sem hefur komið út hjá öllum streymisveitum nema Storytel. Tæpar tíu mínútur í hlustun. Já, ég veit með Spotify en sjálfur nota ég Tidal. Það skiptir ekki máli í flokki ljóðabóka þar sem hver bók selst alla jafna í 300 eintökum. Eða hvort þetta er einu sinni sá flokkur eða einhver allt annar, einhver gender-bender, hvað veit ég. Bókin er alla vega ekki á Storytel. Enda ekki bók og ekki hljóðbók heldur hljóðverk sem gerir tilraunir með hvað hljóðbók gæti verið.

PS. Því má bæta við að mjög svo kröfuharður sonur minn las nýlega bók eftir Hildi Knútsdóttur. Flestir á þessu sviði fá falleinkunn hjá honum, honum finnst barna- og ungmennabækur óþarfar, en bók Hildar slapp í gegnum nálaraugað. Það gerir ekki hver sem er.