Öskukallar og rusl og bókarkápa

Svei mér þá ef þetta er ekki hann Garðar öskubílstjóri sem situr við stýrið á öskubílnum framan á nýrri bók Halldórs Armands, Mikilvægt rusl.

Ég man vel eftir Garðari. Við unnum saman, hann var bílstjóri og ég öskukall. Hann þá nokkru eldri en hann er á myndinni. Sjálfur hefði ég tekið Þórólf fram yfir hann, þótt Þórólfur væri kannski bæði blíðari og dauflegri. Ekki Sigurberg, því hann var ekki með meirapróf þótt hann laumaðist stundum til að aka öskubílnum nokkra tugi metra ef bílstjórinn hafði brugðið sér frá. Sigurbergur var líka svolítið vafasamur á margan hátt. Ég ímynda mér að fyrir hafi legið úrval ljósmynda af öskubílstjórum og að valið hafi staðið á milli allra öskubílstjóra borgarinnar og að ég hefði þekkt þá allmarga.

Mitt fyrsta val hefði verið X, sem ég nafngreini ekki því eftir því sem ég best veit er hann enn öskubílstjóri og hann gæti þurft að sæta aðkasti starfs síns vegna ef ég nafngreindi hann. Okkur varð vel til vina. Hann átti sólgleraugu sem voru svipuð þeim sem Garðar er með, bara töffaralegri. Raunar var hann á allan hátt meiri töffari og flippkisi og meiri öskukall en nokkur annar í ruslinu. Hann var demanturinn í sorpinu, göfugur og töff, sem varð ekkert endilega auðveldara þótt öskukallar væru blanda af brotamönnum, morðingjum og geðsjúklingum og alls kyns utangarðsmönnum. Hann hló og lét gjarnan eins og hann sæti á hesti fremur en hann væri að keyra öskubíl og fnæsti og hneggjaði fyrir bílinn og tók í taumana og hló.

Það er best að lesa bók Halldórs Armands. Í stétt íslenskra menntamanna er ég langsamlega best að mér um öskukalla, rusl og öskubíla. Ég gæti sagt margar sögur þar af. Ein þeirra er reyndar í skáldsögunni Níu þjófalyklar. Fyrirfram myndi ég setja bók Halldórs Armands í flokk með skáldsögunni Stúlkan í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur sem ég hef lengi haft mætur á.

X gaf mér sólgleraugun sín. Ég á þau enn.