Persónufornöfnin og bréfritarinn, ráðgjafi keisarans

Kyndugt þetta með að tala um sjálfan sig í þriðju persónu, eins og tíðkast á vissum sviðum og reyndar færist almennt í aukana.

Rómverskir keisarar gerðu þetta. Margir fjölmiðlar gera þetta, einkum í óundirrituðum skrifum, fréttaritari segist mættur á vettvang, ef þeir eru fleiri en einn þurfa þeir að nota þriðju persónu fleirtölu, sem hlýtur að flækja málin talsvert. Ef sá sem skrifar vísar þá ekki í sig í þriðju persónu með heiti miðilsins, einmenningsmiðils eða ekki. Og úr því hver manneskja er farin að líta á sig sem fréttaveitu, styttist kannski í að allir tali um sig í þriðju persónu. Samræðan verður þá endanlega engin, fólk mun bara vitna í einhvern óskyldan aðila sem aðrir óskyldir aðilar eru sammála. Óvinahópurinn gerir það sama, ekki bergmálar á milli. Fyrsta persóna eintölu deyr út. Fyrir rómversku keisarana voru þetta talsverð viðbrigði ef þeir ólust ekki upp þannig að leynt eða ljóst var vitað að fyrir þeim lægi að verða keisarar. Að hafa alla ævi notað eitt fornafn og fara síðan að nota annað hlýtur að hafa valdið umtalsverðum ruglingi.

Persónufornöfn eru með öðrum ekki lokaður orðflokkur eins og stundum er haldið fram og hafa aldrei verið það.

*

„Um hvern er yðar háæruverðuga hátign að tala? Hundraðshöfðingjann?“

„Er hans hátign að tala um mig?“ skýtur hundraðshöfðinginn inn í.

„Nei, Júpíter hafi það, hann er að tala um hann.“

„Um Júpíter?“

„Nei!“ hvæsir keisarinn. „Um hans hátign keisarann Neró. Neró vill að smakkarinn verði sóttur!“

Smakkari Neró er sóttur. Hann byrjar á að útskýra að hann sinni hættulegu starfi, sem sé að smakka matinn fyrir keisarann til að athuga hvort hann sé eitraður og hann sé búinn að smakka hann í dag, verkefninu sé lokið, en líklega eigi keisarinn við sjálfan sig, þótt vissulega megi líta svo á að hann, smakkarinn, sé staðgengill hans, keisarans, að sumu leyti þótt hann, smakkarinn, myndi aldrei voga sér að bera sjálfan sig saman við hans háæruverðugheit. Svo grípur hann skyndilega um kviðinn og engist af kvölum. Síðan dettur hann niður örendur.

***

Þýddi agnarögn af Seneca. Seneca fékkst ekki aðeins við Stóuspeki heldur var hann satíruskáld. Satíran var form síns tíma þótt efast megi um erindi hennar í veröld sem líkist sífellt meira satíru, eða jafnvel satíru af satíru, er lítill sláttur í því að koma færandi hendi með satíru og eins líklegt að sú satíra verði óðar satíra af sjálfri sér og höfundinum. Svo útbreitt og sprækt var formið, svo beitt og lifandi, að annar hugsuður, vinur Seneca, Lúsílíus, skrifaði einnig satíru. Seneca sýndi honum ekki vægð í velvild sinni þegar hann skrifaði honum bréf.

„Ég veit að þér er ljóst, Lusílíus, að enginn getur lifað hamingjusömu lífi, eða einu sinni bærilegu lífi, án þess að leita sér visku, og að fullkomnun viskunnar er grunnurinn að hamingjusömu lífi, þótt jafnvel fyrstu skrefin í átt að visku geri lífið bærilegt. Og þessa sannfæringu, hversu skýr sem hún kann að vera, þarf þó að styrkja og dýpka og rótfesta með daglegri íhugun. Að koma sér upp göfugum ásetningi er ekki eins mikilvægt og að standa við þann ásetning sem þú hefur nú þegar sett þér. (…) En að mínu heiðarlega áliti og þótt ég bindi miklar vonir við þig hefur þú þó enn ekki gert mig fullvissan um þig. Og ég vildi að þú kæmir þér upp svipuðu viðhorfi. Þú hefur engan grundvöll til að skapa þér fullgerða og hraðsoðna trú á sjálfum þér. Gerðu leitandi greiningu og grandskoðaðu sjálfan þig í alls konar ólíku ljósi. Hugleiddu umfram allt hvort viska þín hafi aukist eða bara árafjöldinn sem þú hefur lifað.“

Seneca var samtímamaður Jesú. Ætli hann hafi ekki mest skrifað sér til hugarhægðar, líkt og Markús Árelíus keisari, skrifað til að þroska sjálfan sig og lifa innihaldsríku lífi. Hann var pólitískur ráðgjafi Neró og gekk ljómandi vel og stjórn var farsæl þar til paranojan hljóp í Neró, eins og hún hleypur gjarnan í keisara, og hann lét drepa Seneca fyrir að hafa átt þátt í ráðabruggi um að eitra fyrir honum, sem hann ekki átti.