Það þarf kannski ekki að segja það og er aðeins til að æra óstöðugan en seinna kjörtímabil Trumps mun ekkert líkjast því fyrra. Það verður miklu verra. Fyrir mörgum áratugum, í seinni heimstyrjöldinni, var til stór hópur kjósenda sem fór fram á að Roosevelt tæki sér alræðisvald vegna kringumstæðna. Roosevelt gat það en gerði það ekki. Það þarf ekki að segja Trump svoleiðis tvisvar og sennilega ekki einu sinni. Hann hefur það að miklu leyti fyrir.
Hin lamandi kennd yfir úrslitunum bliknar í samanburði við framtíðarugginn og þá vissu að það þýðir ekkert að svara Trump fremur en öðrum popúlistum. Hann hefur nú þegar tekið orðið „popúlisti“ og nýtt það í eigin þágu. Fyrst aðferð Kamölu virkaði ekki, hún tók á honum af meiri afslöppun en aðrir á undan henni og með meiri húmor (það er ekki hægt að taka það alvarlega að hann muni veita konum réttindi „hvort sem þeim líkar betur eða verr“), þá virkar ekki neitt. Allt sem sagt er gegn honum nýtist honum. Hann mun refsa óvinum sínum. Margir hópar gætu allt eins flúið land strax.
***
Minntist ég á Gustave Le Bon hér eða gerði ég það ekki? Hans klassíska rit Sálfræði fjöldans segir allt sem segja þarf um aðferðafræði popúlista og ekki síst um hvenær jarðvegurinn er frjór svo slíkir geti öðlast alræði: Fjöldinn er reiður og ringlaður.
***
Man ekki hvort ég hef það frá Le Bon, sennilega ekki, en til þess að ekki sé hægt að svara popúlistanum er aðferðin þessi: 1 Slá fram yfirgengilega svaðalegri fullyrðingu 2 Tala um ofsóknir á sér 3 Mála upp mynd af demónum, demónísera 4 Sannfæra fjöldann um að hann sé einnig fórnarlamb sömu ofsókna 5 Bíða þess að skarinn finni samlíðanina fara um sig því hver og einn sé einnig ofsóttur, bíða þess að skarinn sættist á að upphaflega fullyrðingin, sem orkaði í fyrstu fráleit sé í raun og veru rétt 6 Taka við klappinu. 7 Þeir sem ekki klappa eru sjálfkrafa demónar.
Það var nánast eitthvað nasískt óhugnanlegt við fagnaðarlætin á einum Trump fundinum.
***
Ég veit vel að ef ég væri á Facebook og dreifði þessu bloggi þar myndi lesendafjöldinn margfaldast. En hver hefur nokkuð að gera við athygli? Hvernig væri ef sem flestir kæmust á þá skoðun að athygli væri óæskileg?
***
Ég er orðinn Innanríkisráðherra. Innanríki Braga Ólafssonar er algerlega frábært verk. Það gýs upp mökkur af liðnum tíma og fögnuður yfir skýrleika á gildi aðalatriða og aukaatriða, einkum aukaatriða. Hef ég bara ekki þekkt Braga neitt, þrátt fyrir áralanga vináttu? Ég þarf að spyrja hann að þessu. Hver ert þú eiginlega og hvað hefurðu gert við hann Braga? Fær Bókmenntaverðlaun Hermanns Stefánssonar, einu bókmenntaverðlaunin sem máli skipta, ásamt enn ólesnum bókum og ásamt Sonum himnasmiðs eftir Guðmund Andra, sem er líka frábær, þótt ég hafi ekki lesið endanlega gerð (og kannski geri ég það ekki, það er einhver hnýsni og einhver sletturekuháttur að lesa bók sem maður hefur lesið í handriti, eins og maður ætli að grennslast fyrir um hvort farið hafi verið eftir manni). Ég fylgi aldrei neinu eftir fyrir Landsrétt þar sem ég er prófarkalesari í hlutastarfi. En það má treysta mér, Synir himnasmiðs er afburðagóður sagnasveigur um karlmenn og karlmennsku, með öllum tilheyrandi göllum og kostum. Alvöru bók.
Tvær alvöru bækur. Það væri nóg fyrir svo lítið land.
***
Ég sé að Kaktusinn telur að íslenskir rithöfundar ættu að herja á íslenska bókaútgefendur að fá stærri sneið af kökunni hjá Storytel, sem stórgræði. Ég deili ekki þessari skoðun því að ég held að hún sé óframkvæmanleg. Íslenskir fagurbókahöfundar ættu að fara að dæmi mínu. Hver í sínu horni ættu þeir að fá bækur sínar fjarlægðar af Storytel af þeirri augljósu ástæðu að prentuð bók missir verðgildi sitt ef hana má fá ókeypis sem hljóðbók. Þetta kallast að skjóta sig í fótinn — orðtak sem ákveðinn rithöfundur sem eitt sinn skrifaði hatrammlega gegn þeirri ódýru aðferð að nefna fólk ekki á nafn en nefnir mig þó aldrei á nafn þegar hann vísar til mín, þegar hann lætur mín ógetið, og ekki að góðu — ætti að vera kunnugra en honum er, enda var það útskýrt fyrir rækilega í Helgarpóstinum á sínum tíma. Það er nóg að ákveðinn hópur söluhöfunda sé á Storytel og hlutdeild þeirra í ágóða má alveg hækka, fremur en að stór hópur höfunda sé útstillingarvara til merkis um mikið vöruúrval og fái sem nemur einum kaffibolla á ári. Það er allt annar sölulisti á Storytel en í bókabúðum.
Maður á að láta fjarlægja allar bækur sínar af Storytel eins og ég hef gert. Til þess þarf að hafa sæmilegt vit á lögfræði því maður þarf að ræða við sænskt lögfræðiteymi sem virðist álíta sig eiga lögsögu á Íslandi. Maður þarf að vera harður og betla með kveinstöfum á víxl, kjökra ögn, tilneyddur. En það er hægt. Síðan gefur maður út hljóðbók eins og hljóðbækur gætu verið og setur á allar aðrar streymisveitur.
Ekki að sölutölur skipti máli og eigi í sambandi við gæði.
Og ekki að athygli sé góð.